Sjöunda Spor: fyrri vika

1.)   Hvaða sérstöku blessun, jafnvel einhverja smávægilega, hefur Guð sent þér frá því að þú byrjaðir í Tólf spora námsefni þínu til bata? Sú blessun er ég hef fundið fyrir fellst í því að ég er að sjá persónuna mig í skýrara ljósi og farið að finna æ meiri kærleik til sjálfs mín sem aftur skilar sér í auðveldari og betri samskiptum við fólk í kringum mig, ég er allur að koma til. Og er farinn að standa fyrir mínu.

 

Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn.

Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.

Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða.

Sakir nafns þíns, Drottinn, fyrirgef mér sekt mína, því að hún er mikil.

2.)   Hvaða sérstöku verkfæri hefur Guð notað til að leiðbeina þér og kenna þér hvað er rétt? (t.d. Biblíuna, bækur, fundi, trúnaðarmenn, rjáðgjafa, presta o.s.frv.)  Ég er að lesa tvær bækur um andlega íhugun Bók Emanúals og Tunglskin sem fellur á tunglið sem fjallar um advaita vedanta árþúsunda gamla andlega hefð sem á rætur sínar og meginsögu  meðal Indverja. Svo er ég með trúnaðarmann sem hefur komið eins og Guðs gjöf inn í líf mitt en þá gjöf hef ég illa nýtt.

 

Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar

kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.

Og friður Guðs sem er æðri öllum skilningi

mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.

3.)   Líður þér betur þegar þú biður? Ef svarið er játandi, þá á hvern hátt líður þér betur? Ef það er nei, í hvaða erfiðleikum átt þú með að biðja? Ég er farinn að biðja æ oftar en enn sem komið er er ég ekki að finna fyrir mætti bænarinnar en held þó ótrauður áfram, erfiðleikar mínir eru árekstrar á milli andlegrar hugsunar og vísindahyggju mína þar sem ég hef knýjandi þörf fyrir að fá sannanir.

 

4.)   Skráðu að hvaða leyti þú finnur fyrir hindrunum varðandi þann árangur sem hefur náðst í að fjarlægja bresti þína? Athyglisbrestur og einbeitingaskortur eru að hefta mig töluvert, það er mikið af hugsanastomum í gangi í heila mínum og ótti við að ná og/eða að ná ekki bata. Ég óttast töluvert að vera það öruggur, ánægður og hamingjusamur að ég er svolítið hræddur um að ég kalli á hrun og afturför í bata mínum. Ég hef meira og minna verið að berjast við kvíðaraskanir og  þunglyndi allt mitt líf og þekki því ekki langvarandi vellíðunar skeið.

 

ÞVERSAGNIR BÆNARINNAR

Ég bað Guð um styrk til að ég gæti náð árangri

Ég var gerður veikburða svo að ég mætti læra að hlýða í auðmýkt

Ég bað um góða heilsu svo að ég gæti gert ennþá meira

Ég hlaut fötlun svo að ég gæti unnið meiri afrek

Ég bað um ríkidæmi svo að ég öðlaðist hamingju

Ég hlaut fátækt svo að ég yrði vitur

Ég bað um völd svo að ég hlyti lofstír manna

Ég fékk veiklyndi til að ég fyndi hve ég þarfnaðist Guðs

Ég bað um að öðlast allt svo að ég gæti notið lífsins

Ég hlaut líf svo að ég gæti noði alls

               Ég fékk ekkert af því sem ég bað um – en allt sem ég vonaðist eftir              

Samt sem áður og þrátt fyrir mig var ósögðum bænum mínum svarað

Ég hef hlotið meiri blessun en allir aðrir.

5.)   Hvernig endurspegla þversagnir bænarinnar reynslu þína af bæninni?  Ég tengi hana ekki bæninni.  Það fyrsta sem kom upp í hugann á mér var 2007 heilkennið, þar sem við flest öll vorum svo ofboðslega upptekinn af veraldlegum gæðum að við  hundsuðum algerlega andlega vellíðan okkar, allt þjóðfélagið var á hvolfi við að eignast einbýlishús, jeppa, snjósleða, stærri brjóst og allskonar drasl, utanlandsferðir ekki sjaldnar en einu sinni á ári.  Því meiri veraldlegar eignir og peninga því betra og farsælla líf, peningar voru allsherjar plástur á öllum eymslum jafnt líkamlegum sem andlegum, því meiri peningar því betri líðan. En svo er nú ekki minn kæri vin.

 

Ef vér játum syndir vorar,

þá er hann trúr og réttlátur,

svo að hann fyrirgefur oss syndirnar

og hreinsar oss af öllu ranglæti.

6.)   Þrátt fyrir það að Guð sé trúr og fyrirgefi og hreinsi okkur, höfum við samt tilhneigingu til að efast. Hvar í lífi þínu efast þú um getu Guðs og vilja til þess að hreinsa þig? Fyrst og fremst efast ég um tilurð Guðs vegna áróðurs trúarstofnana og þá sérstaklega þá mynd sem trúarit hinna mismunandi trúarbragða setja fram í krafti þess að hið ritaða orð þessara bóka sé heilagur sannleikur, þær eru heimildir. Jesú Kristur útskýrði þetta best „musteri Guðs er innra með yður“ Amen!

 

7.)  Hvað er þetta eitthvað  sem var tekið frá þér sem barni áður en þú varst reiðubúinn til þess að láta það af hendi? Því er auðsvarað, minningar! Ég hef verið að spyrjast fyrir um æsku mína og það er ekki annað að heyra en ég hafi átt góða og kærleiksríka æsku og innsæi mitt segir mér að það sé rétt enda eru mínir nánustu vænar og vel gerðar manneskjur að mestu leyti. Ég var víst alveg afskaplega feimið og óframfærið barn sem hékk að mestu leyti í pilsfaldi móður minnar og systir mín sem er tveim árum eldri en ég tók að sér að vera minn verndari (einskonar lífvörður) svo ég var undir góðum verndarvængjum.

 

Hver sem upphefur sjálfan sig mun auðmýktur verða,

En sá sem auðmýkir sjálfan sig,

mun upphafinn verða.

8.)   Við sýnum auðmýkt okkar fyrst í samskiptum okkar við aðra og síðan frammi fyrir Guði. Hvernig hefur þú sýnt auðmýkt í verki gagnvart öðrum? Ég hef sýnt auðmýkt með því  t.d. að gefa fólki sem við fyrstu kynni mér finnst leiðinlegt og hef engan áhuga á að kynnast betur og átti til að skjóta föstum leiðinda skotum á tækifæri og oftar en ekki með því að sýna æðruleysi og auðmýkt hefur fólk komið mér skemmtilega á óvart og mér hefur farið líka betur og betur við.  

 

9.)   Hvað ótti kemur upp á yfirborðið hjá þér þegar þú hugsar um að treysta Guði fyrir framtíð þinni í stað þess að treysta sjálfum þér? Ég vil klárlega treysta æðri mætti fyrir framtíð minni það veldur mér ekki ótta. Það sem hinsvegar veldur mér ótta er að mér takist ekki að finna fyrir æðri mætti í hjarta mér sem ég þrái samt að finna. Það er einhver hindrun þarna sem ég er ekki alveg að átta mig á, vísindamaðurinn hefur jú sín áhrif en það er eitthvað meira sem ég þarf að komast að hvað er.

Sjötta Spor: seinni vika

1.)  Hvaða hagnýtan vísdóm eða aðferð hefur þú lært af námsefninu sem gæti hjálpað þér nú? (t.d. að vinna fyrstu þrjú sporin, nota æðruleysisbænina, að deila þessari baráttu á fundi o.s.frv.) Ég er farinn að verða þolinmóðari og finn meir og meir fyrir æðruleysi gagnvart fólki í kringum mig í stað þess að verða pirraður og dæma þá er ég töluvert rólegri og yfirvegaðri gagnvart fólki sem ég hef átt það til að láta pirra mig. Öll þessi sjálfsskoðun er að gera það að verkum að mér er að takast að kynnast sjálfum mér betur og skynja og takast á við bresti sem hafa fylgt mér um ómuna tíð. Mér er farið að takast betur að sættast við æðri mátt og er farinn að biðja oftar og oftar, ég er líka farinn að tala um vinnu míma í sporunum við margt af því fólki sem ég þekki og mjög margir eru orðnir forvitnir og vilja skoða þessa vinnu betur.

 

Eins og börn með brotin leikföng

báðu grátandi um að þau yrðu lagfærð,

lagði ég brostna drauma mína fram fyrir Guð

af því að hann var vinur minn.

En svo, í stað þess að skilja Hann

eftir einan í friði til að vinna verkið,

vappaði ég í kring og reyndi að hjálpa

með ráðum sem voru mín eigin.

Loks hrifsaði ég þá aftur til mín og hrópaði:

„Hvernig getur þú verið svo lengi?“

„Barnið mitt,“ sagði Hann,

„hvað gat ég gert?

Þú slepptir aldrei tökunum.“

 

2.)  Hvernig sérð þú sjálfan þig í ljóðinu Brostnir draumar?  Ég hef klárlega aldrei verið fullbtilbúinn að sleppa takinu. Í stað þess að biðja og leyta til Guðs um aðstoð við að takast á við vanlíðan mína og fá styrk þá hef ég verð fastur í hringrás vanlíðunar og ekki verið þess albúinn að takast á við vanlíðan mína af fullri alvöru og með hjálp æðri máttar, veikindum mínum og vanlíðan hef ég að einhverju leyti ekki viljað sleppa takinu af því þau eru jú auðvitað þekkt ástand. Að líða vel og hafa góða sjálfsmynd er eitthvað sem er mér óþekkt og því óttafullt ástand, ég hef verið hræddur við það því þá fer ég að takast á við aðstæður sem ég hef alla tíð forðast og verið hræddur við. Það er ekki svo einfalt að sleppa tökunum á líslöngum sársaukafullum vana.

 

3.)  Hvað óttast þú að gerist þegar brestir þínir verða fjarlægðir?  Ég óttast það mest að það verði einungis tímabundið, það er í raun það sem ég hef óttast hvað mest, þegar mér hefur verið farið að líða betur þá fell ég oft í það ástand að tala mig niður, að hið góða ástand geti ekki varið það sé bara tímabundið ég muni falla aftur í gamla farið. Ég vil losna við alla mína bresti!

 

En trúr er Drottinn og hann mun styrkja yður

og venda fyrir hinum vonda.

 

4.)  Hvaða jákvæðri breytingu hefur þú tekið eftir á hegðun þinni, á hugsanamynstri eða í samskiptum? Ég fer nú yfir það í 10. spurningu að einhverju leyti. Ég get reyndar bæt þvi við að ég er farinn að vera bjartsýnni og hef meiri trú á sjálfum mér, ég er farinn að verða styrkari í samskiptum við fólk, ég á mjög auðvelt með að fara að gera lítið úr sjálfum mér í samtölum við annað fólk og gera því upp hugsanir um að ég sé leiðinlegur, ljótur, heimskur og einskis virði sem manneskja, þetta er farið að minnka meir og meir. Mér er farið að auðnast að sjá sjálfan mig fyrir þá góðu manneskju sem ég er. Auðvitað er dagamunur á en nú er ég mér meðvitaðri um það og læt það ekki brjóta mig niður.

 

Þannig skuluð þér líka álíta yður sjálfa vera dauða syndinni,

en lifandi Guði i Kristi Jesú.

Látið því ekki syndina ríkja i dauðlegum likama yðar,

svo að þér hlýðnist girndum hans.

 

5.)  Hvaða skapgerðarbrestir hafa valdið þér mestum sársauka og þarfa að fjarlægja fyrst? Skömm, samviskubit og yfirmáta meðvirkni, ég vil ekki lengur lifa í skugga þeirra og undir þeirra stjórn í stöðugu andlegu myrkri og sársauka.

 

6.)  Hvað þýðir albúinn fyrir þig? Í þessu tilviki þýðir það að vera tilbúinn af öllum lífs og sálarkröftum að fá bót meina minna, að vera þess viljugur að láta bresti mína í hendur Guðs og vera þess albúinn að fela honum bata minn.

 

Ég leita þín af öllu hjarta,

lát mig eigi villast frá boðum þínum.

Ég geymi orð þín í hjarta mínu,

til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.

Lofaður sért þú, Drottinn, kenn mér lög þín.

 

7.)  Útskýrðu hvernig það að leita eftir vilja Guðs hefur hjálpað þér til að verða fúsari til að breytast. Sú leit hefur gert það að verkum að ég er að fara meira inn við í leit að svörum sem gera mér það kleift að takast á við þá bresti sem ég er að glíma við, í viðleitni minni til að leyfa mér að þykja vænt um mig persónuna þá bæði kosti og galla.  Ég er smám saman að hætta að brjóta mig niður og dæma mig fyrir ýmsa smá galla sem ég áður svitnaði yfir af kvíða. Sem merkilegt nokk gerir mér kleift að takast betur á við.

 

Og þetta er sú djörfung, sem vér höfum til hans:

Ef vér biðjum um eitthvað eftir hans vilja,

þá heyrir hann oss.

Og ef vér vitum, að hann heyrir oss,

um hvað sem vér biðjum,

þá vitum vér, að oss eru veittar þær bænir,

sem vér höfum beðið hann um.

 

8.)  Lýstu því trausti sem þú hefur til Guðs til að hjálpa þér að fjarlægja skapgerðarbresti þína.   Þegar mig vantar leiðbeiningu þá sé mér unnt að leita til hans og hann mun vera mér til handar við að sjá brestina eins og þeir eru, og ég nái að kryfja þá það vel að mér takist að læra af þeim og þroskast sem muni aftur styrkja mig. Eins og ég sé þetta að sumu leyti þá er það að geta hugsað til og treyst á æðri mátt sem einskonar leiðbeinanda og vin sem ég get átt í samræðum við í huganum að Guð sem ég er órjúfanlega tengdur og hluti af mun ávallt vera til staðar fyrir mig hvenær sem ég þarf á honum að halda. Guð er jú inn í mér.

Sjötta Spor: fyrri vika

1.) Fjórða og fimmta sporið hafa eflaust valdið því að þú hefur rifjað upp sársaukann sem þú hefur valdið sjálfum þér og öðrum. Hverjar af þessum sársaukafullu minningum finnst þér gera þig fúsari til breytinga? Það er nú ekki svo að það sé einhver ein minning sem upp úr stendur miklu frekar er það sú vinna sem ég hef tekið mér fyrir hendur hjá Vinum í bata sem hefur gert mér kleyft t.d. að svara spurningunum í vinnu heftinu sem aftur hafa gert það að verkum að það eru heilmargar tilfinningar sem og sjálfmyndin sem ég er farinn að sjá glöggvar og tilfinningar sem ég vil losna við t.d. skömmin og sektarkendin sem hafa fylgt mér frá því ég man eftir mér.

Gjörið því hugi yðar viðbúna og vakið. Setjið alla von yðar
til þeirrar náðar, sem yður mun veitast við opinberun Jesú Krists.
verið eins og hlýðin börn og látið eigi framar lifnað yðar mótast af
þeim girndum, er þér áður létuð stjórnast af í vanvisku yðar.

2.) Hversu langt nær traust þitt núna? Treystir þú Kristi til að fjarlægja bresti þína eða treystir þú á þinn eiginn viljastyrk til að breytast? Útskýrðu. Nei ég er ekki að treysta Kristi eða réttara sagt þá er ég ekki sannfærður um tilvist hans, eins mikið og ég vil finna þá gerist það bara ekki (ég þrái en eigi fæ). Ég er í raun að treysta nánast alfarið á sjálfan mig. Trú mín er samt að styrkjast en hún er ekki beint á línu kristninnar.

Þá munt þú gleðjast yfir Drottni og
Hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.
Fel Drottni vegu þina og treyst honum. Hann mun vel fyrir sjá.

3.) Á hvern hátt felur þú Guði bata þinn? Ég geri það á þann hátt að mín trú er t.d. þannig að ég er á þvi að sál mín sé leiftur af Guði, ég sé hluti af honum og þegar við sameinumst þá erum við eitt, þannig sé ég að Guð er að verka í gegnum mig, það er mitt að finna hann í þessu lífi, ég vil fela honum hjarta mitt.

Ekki er svo, að ég hafi þegar náð því eða sé þegar fullkominn.
En ég keppi eftir því, ef ég skyldi geta höndlað það,
með því að ég er höndlaður af Kristi Jesú.
Bræður, ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það.
En eitt gjöri ég.
Ég gleymi því sem að baki er, en seilist eftir því sem framundan er,
og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum,
sem Guð hefur kallað oss til fyrir Krist Jesú.

4.) Hvaða brestir eru enn að tefja fyrir þér í bata þínum? Meðvirkni, Skömm, sektarkennd, brotin sjálfsmynd og ótti við að takast á við lífið með öllu sem því fylgir. Ég er voða hræddur við dóm fólks og samfélagsins um að ég sé ekki verðug manneskja til að eiga í heilbrigðu og eðlilegur sambandi við fólk og að ég muni lifa með alla mína vantrú og ótta það sem eftir lifir, uppfullur af skömm og sektarkennd.

5.) Hvaða veikleikar eru það sem þú ert ekki algerlega tilbúinn til að láta fjarlægja? Útskýrðu hvers vegna þú ert ennþá háður þeim? Ég man mikið frekar eftir brestum sem ég vil láta fjarlægja og þeir eru ansi margir. En þó er einn sem mér dettur í hug og það er sjálfbyrgingsháttur (sjálfselska) þar sem ég leitast eftir að fólki finnist ég vera alveg rosalega yndisleg og sérstök manneskja og þörfina fyrir að fá bæði jákvæð ummæli og upphefð til að bæta upp brotna sjálfsmynd, ég vil að fólk sjái mig sem einstaka manneskju.

Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti
með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að
reyna hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.

6.) Við nálgumst Guð til þess að læra að þekkja vilja hans og fara eftir honum. Útskýrðu hvernig þú færist nær Guði, t.d. með helgun, bæn, samfélagi, notkun dagbókar, með því að hugleiða o.s.frv. Í samfélagi reyni ég að nálgast hann með samræðum um trú og hvað felist á bakvið hana, ég vil velta trúnni svolítið fyrir mér og svo hugsa ég töluvert mikið um trúarlíf mitt sem er nú ekki mikið en bið þó einstaka sinnum, trú er persónubundinn.

7.) Skráðu dæmi um bænir þínar sem sýna að þú gerir kröfur til Guðs í stað þess að biðja um að vilji hans verði í lífi þínu eða að segja frá sannleikanum um sjálfan þig. Ég man ekki til þess að ég hafi nokkurn tíma gert kröfur í þau skipti sem ég hef beðið, ég held ég hafi ekki gert það en er samt ekki alveg hundrað prósent viss. Bænir mínar hafa frekað verið eins og bón.

Auðmýkið yður fyrir Drottni, og hann mun upphefja yður.

8.) Við sýnum auðmýkt okkar fyrst frammi fyrir Guði í bæn. Skrifaðu bæn í einni setningu þar sem þú í auðmýkt segir Guði sannleikann um sjálfan þig varðandi einvhern sérstakan skapgerðarbrest. Kæri Guði ég er uppfullur af skömm og sektarkennd, ég bið þig Guð um að hjálpa mér að losa mig við þennann sársauka í lífi mínu.

Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum
örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.
En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast
er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi.

9.) Skráðu hvern þann vafa, sem í þér býr og hindrar það að þú sért reiðubúinn til þess að láta Guð fjarlægja skapgerðarbresti þína. Fyrst og fremst er það óttinn við að mér muni á engann hátt takast að ná að byggja mig upp og muni falla aftur og aftur í skömm og sektarkennd, vanmátt og ótta. Vísindahyggja mín hindrar mig þónokkuð í að geta fundið fyrir æðri mætti, mér hættir til að vilja finna sannanir sem er nú samt ekki galið þegar að vísindum kemur en er nú ekki að hjálpa mér að finna minn æðri mátt.

Seinni hálfleikur

Jæja nú er komið að seinni hálfleik, starfið hófst aftur í fyrstu viku janúar. Mér er mjög hugleikið eftir að hafa lokið starfinu hér hjá Vinum í bata fyrir áramót hver staða Biblíunnar er í mínum huga, ég hef mikið verið að velta því fyrir mér. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu fyrir mig að Biblían er heimildar- og sagnfræðirit mikið það er mjög margt í henni sem á engan veginn við í dag, hún er jú barn síns tíma en fyrir mig þá er kærleiks boðskapur Jesú Krists tímalaus, á alltaf við og kemur til með að lifa um alla eilífð. Það er annað sem ég hef verið að velta fyrir mér með vinnubókina 12. sporin Andleg vinna og það er einfaldega þetta, ég vildi sjá að í staðinn fyrir að skrifa Guð þá væri ávallt skrifað æðri máttur það er nokkuð sem ég hef trú að að allflestur ættu að geta sæst á, allavega er það mín von enda er talað og skrifað um það í byrjun á þennan máta “æðri mátt eins og við skiljum hann enda hefur stofnuni kirkjan með framferði sínu mengað fyrir mér hugtakið Guð en samt sem áður bið ég til Guðs þegar ég geri það svo ég er ekki að tala um að ég sé á móti Guði.

Það sem vinna mín hér hjá vinum mínum í bata hefur gert fyrir mig er að læra að þekkja sjálfan mig betur, verða styrkari og betri manneskja, fyrirgefa mér bresti mína og taka þá í sátt og leiðinni að láta þá ekki stjórna mér. Æðruleysi mitt hefur aukist það mikið að ég er á allann hátt orðinn ofboðslega yfirvegaður. Það hefur reynst mér ómetanlegur styrkur að geta fyrirgefið sjálfum mér fyrir ragngjörðir mínar, þær voru aldrei þess eðlis að særa aðra meðvitað. Að lokum er ég að læra að elska sjálfan mig meir og meir eftir því sem á líður og er það vel.

Mínar innstu kærleikskveðjur.

Fimmta Spor, seinni vika.

Við viðurkenndum afdráttarlaust fyrir Guði, sjálfum okkur

og öðrum einstaklingi yfirsjónir okkar.

 

Meðan ég þagði, tærðust bein mín,

allan daginn kveinaði ég,

´Því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér,

lífsvökvi minn þvarr sem í sumarbreiskju.

Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mina.

Ég mælti: “ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni,”

og þú fyrirgafst syndarsekt mína.

11.)  Hver eru þau slæmu áhrif sem þú finnur fyrir þegar þú leynir misgjörðum þínum? Þau valda mér depurð og vanlíðan og fá mig til að fela mig fyrir heiminum, ég reyni eftir fremsta megni að kæfa allar tilfinningar og minningar um misgjörðir þær er ég hef gert.

12.)  Hvers konar tjáskipti vilt þú fá frá þeim einstaklingi sem hjálpar þér við að ljúka fimmta sporinu, t.d. reynsla viðkomandi, að einstaklingurinn sjái sálfan sig í þinni sögu, samþykki og huggun í orði, staðfesting á fyrirgefningu Guðs, o.s.frv.? Fyrir það fyrsta vil ég eiga í gagnvirkum samskiptum við þann einstakling, hann þarf hvorki að skilja mig né samþykkja eða hugga mig. Að hann hlusti með kærleik að leiðarljósi og sé ekki að dæma það er það sem skiptir mig máli, ekki að hann sjái sjálfan sig í mér eða öfugt. Einnig skiptir máli að viðkomandi hafi reynslu í sporavinnunni og geti sýnt því sem ég tjái mig skilning.

13.)  Hvað vonast þú til að fá við að hlusta á sjónarmið viðkomandi einstaklings? Aukinn skilning á sjálfum mér og þeim málefnum og tilfinningum sem eru að brjótast hið innra með mér. Svona eureka augnablik þar sem ég geti séð mína lífsreynslu í öðru ljósi og frá öðrum vinkli.

14.)  Skráðu þau atriði úr úttekt þinni þar sem bæn er þér mikilvæg. Ég er ekki mikið að biðja en hef þó aukið það undanfarið, ef það er eitthvað sem er mér mikilvægt að fá í gegnum bæn þá er það aukinn lífsvilji og lífsgæði.

15.)  Lýstu þeirri reynslu er þú viðurkenndir bresti þína fyrir öðrum einstaklingi. Það skipti sem ég fann hvað mest og verst fyrir að deila var þannig að ég fann herping inn í mér og ég skalf af ótta við að segja frá þessum atburði sem hefur fylgt mér í áratugi en samkenndin, virðingin og kærleikurinn sem ég fann fyrir hjá hópnum mínum varð mér ólýsanlega mikill styrkur, ég var eins og sprungin blaðra er heim var komið það kvöld.

16.)  Í hvaða erfiðleikum áttir þú við að deila sögu þinni með öðrum einstaklingi? Tókst þér að vera nákvæmur? Útskýrðu. Ég var alveg  við það að gugna þegar á hólminn var komið og var í einskonar doða af kvíða við að deila sögu minni en á sama tíma gat ég varla beðið eftir að koma þessu frá mér. Já mér tókst að vera þokkalega nákvæmur og hnittmiðaður í frásögn minni.

17.)  Á hvern hátt hefur það, að þú viðurkenndir bresti þína, hjálpað þér til að horfast í augu við fortíð þína? Það hefur sýnt mér að sama hversu mér finnst erfitt að horfast í augu við eitthvað úr fortíð minni og kýli minninguna aftur og aftur niður í undirmeðvitundina þá er það svo rosalega gott að hafa svona góða að og sem eru sjálf að vinna í sér og vilja allt fyrir mann gera og dæma ekki. Því það að horfast í augu við drauga fortíðar og takast á við þá er margfallt betra en að lifa í sektarkennd og ótta við eitthvað sem ég gerði eða lenti í þegar ég var yngri. Að losa úr bagga óttanns og finna kærleika til sjálfs míns aukast og sjálfsmyndina styrkjast að sama skapi er yndisleg tilfinning.

18.)  Hvernig færði fimmta sporið þig nærri Guði og nær öðru fólki? Það hefur fært mig nær Guði að því leitinu til að ég er að velta minni trú og sannfæringu meir og meir fyrir mér, trúarleit sem hefur staðið yfir í áratugi þar sem ég get á engann hátt keypt boðskap kirkjunnar hráann. Eins og Jesús sagði „musteri Guðs er hið innra með yður“. Í samskiptum við fólk er ég að verða minna og minna meðvirkur og passa betur og betur upp á að vera ekki í því hlutverki að þóknast bara fólki er að standa meir og meir með sjálfum mér og er að takast að gefa meira af mér, sem er yndislegt. Á t.d. orðið mkið auðveldara með að veita fólki knús.

19.)  Hvað ætlar þú að gera næst þegar þú bregst við með þinni gömlu hegðun? Nú er ég orðinn og er að verða meðvitaðri um hegðunarmynstur sem fór algerlega fram hjá mér svo ég mun leggja mig fram við að auka bæði meðvitund mína og um þetta og grípa strax inn í og stöðva hana, ef hún veldur öðru fólki á einhvern hátt vanlíðan og ef ég geng yfir strikið þá mun ég taka það upp við viðkomandi manneskju(r) og  biðjast afsökunar á særandi ummælum og hegðun hjá mér.

Fimmta Spor, fyrri vika.

Við viðurkenndum afdráttarlaust fyrir Guði, sjálfum okkur

og öðrum einstaklingi yfirsjónir okkar.

1.)  Lýstu einhverjum tilfinningum sem þú fannst fyrir þegar þú gerðir úttekt þína. Ég er ekki byrjaður á lstanum, en ég tók gremju-tiltekt í skápunumhjá mér síðustu helgi og er búinn að fara yfir alla listana og fann þá fyrir því andleysi og það þyrmdi yfir mig, mér ætlar að ganga illa að koma orðum á blað, er stöðugt að hugsa um þá. Gott ef þeir eru ekki bara að valda mér kvíða og depurð. Ég er einhvern veginn svo andlaus gagnvart listunum sjálfum.

Gefið yður því Guði á vald,

standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.

Nálægið yður Guði og þá mun hann nálgast yður.

Hreinsið hendur yðar, þér syndarar,

og gjörið hjörtun flekklaus, þér tvílyndu.

2.)  Hvernig færðist þú nær Guði meðan þú gerðir persónulega úttekt þína? Ég hef ekki enn hafið úttektina, en er mikið að hugsa um hana og tengingu mína við æðri mátt og hvar ég í raun stend gagnvart því. Vangaveltur mínar eru búnar að vera ófáar um trú mína á Guði og hvað þurfi að gerast til að ég finni frið í hjarta mínu og þor til að horfast í augu við Guð. Það er þá á þann hátt sem ég hef nálgast Guð í hænu fetum.

3.)  Hverjar eru vonir þínar og ótti varðandi fimmta sporið? Vonir mínar eru þær að ná að tengjast tilfinningum mínu, þekkja þær geta nefnt þær á nafn og skilgreint hvað þær eru að segja mér þegar þær svona poppa fram allt í einu og segja hæ ég er kominn í heimsókn og þú þekkir mig ekki lalalalalal. Ég vil ekki lengur finna fyrir skömm né ótta við að vera tilfinningavera. Ég vil líka ná að finna fyrir almættinu í hjarta mér, finna sannleikann eins og ég er aðeins að taka eftir. Mína sannfæringu og staðfestingu á  mér með Guð við hlið mér. Ég óttast að það takist ekki.

4.)  Hverja af yfirsjónum þínum finnst þér erfiðast að viðurkenna fyrir öðrum einstaklingi og hvers vegna? Þessari spurningu kýs ég að halda fyrir sjálfan mig, ég vil engan veginn setja svarið á veraldarvefinn. Ég las hana upp í hópnum mínum og læt það duga.

Þvi skal sérhver af oss

lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig.

5.)  Ef þú hefur viðurkennt yfirsjónir þínar fyrir Guði, getur þú treyst miskunn hans. Lýstu reynslu þinni eða skilningi á miskunn Guðs fyrir þig nú. Þar sem Guð hefur alla tíð þekkt mig út í gegn þá er málið ekki það að hafa áhyggjur af því, heldur opna hjarta mitt fyrir honum Gussa. Það sem ég get sagt í sannleika hér er það að ég held mér sé að takast að finna fyrir nærveru hans, allavega vona ég að sá atburður muni eiga sér stað. Ég er ekki frá því að Guð hafi leitt mig hönd í hönd í sporavinnunna. Mér finnst það vera rétt og satt.

6.)  Á hvern hátt fannst þú fyrir skylirðislausum kærleika Guðs til þín? Því miður hefur mér ekki tekist að finna hann. Sá æðri máttur eins og ég skil hann hefur mér ekki tekist að tengjast skylirðislaust. En sú leið er ég hefi farið hin undanfarin ár hefur verið að mestu leyti ens og ég hafi verið leiddur áfram á rétta braut (vonandi). Ég hef verið að kynnast fólki síðustu ár sem hefur komið inn í líf mitt og verið á nokurnveginn sömu nótum og ég, eins og við höfum verið leidd saman af æðri mætti.

Ef við segjum: “Vér höfum ekki synd,” þá svíkum vér sjálfa oss

og sannleikurinn er ekki í oss. Ef vér játum syndir vorar,

þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar

og hreinsar oss af öllu ranglæti.

7)  Hvað notar þú til þess að leiða hugann frá að brotna undan sársaukanum, t.d. sjónvarp, útvarp, músík, starfsemi, vinnu, sambönd, efnanotkun, trú, o.s.frv. Ég nota bækur, sjónvarp, vinnu, á stundum hef ég notað eiturlyf, áfengi þar með talið. Ekki má gleyma dagdraumum fer oft í felur frá raunveruleikanum inn í ímyndaðan draumaheim.

8.)  Hver af skapgerðargöllum þinum eða veikleikum veldur þér ótta eða skömm þegar þú hugsar um að deila sögu þinni með öðrum enstaklingi? Að vera svo meðvirkur að ég læt teyma mig út í aðstæður sem ég myndi aldrei fara út í undir venjulegum kringumstæðum. Gera eitthvað ljótt og/eða jafnvel ólöglegt og vilja það í raun ekki t.d. að fara á fyllerí og svo vill einhver dóp en ég er ekki til í það en læt samt tilleiðast.

En nú kom hann til sjálfs sín og sagði:

“Hve margir eru daglaunamenn föður míns

og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri!

Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann:

Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér.

Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn.

Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.”

9.)  þegar glataðir sonurinn játaði syndir sínar, varð hann að viðurkenna hræðilegar yfirsjónir sínar. Hvaða yfirsjónir eru það sem þig langar mest til að segja einhverjum frá? Þessari spurningu sömuleiðis vil ég ekki setja á veraldarvefinn, læt nægja að deila henni með hópnum mínum.

10.)  Hvaða eiginleika finnst þér nauðsynlegt að sá einstaklingur hafi sem þú vilt deila fimmta sporinu með? Fyrst og fremst að viðkomandi hafi reynslu í sporavinnunni, að hann sé víðsýnn, geti rætt hvert það málefni sem ég er að treysta honum fyrir, jafnvel gefið ráð, sé fordómalaus gagnvart hverju því sem ég deili með honum og geti sýnt samkennd.

Fjórða Spor, seinni vika.

Svo virðist sem ég sé búinn að týna spurningunum fyrir þessa viku. Ef ég finn þær mun ég skrifa þær hér inn við fyrsta tækifæri.

Við gerðum óttalaust nákvæman siðferðislegan lista

yfir skapgerðareinkenni okkar

11.)  Skráðu það sem þú óttast mest. Hvernig truflar það líf þitt?

Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann.

Því að óttinn felur í sér hegningu,

en sá sem óttast er ekki fullkoinn í elskunni.

12.)  Hvaða ótti gerir vart við sig þegar þú gerir þér grein fyrir að Guð þekkir alla þína galla?

Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni, prófið yður sjálfa.

Gjörið þér yður ekki grein fyrir, að Jesús Kristur er í yður?

Það skyldi vera að þér stæðust ekki prófið.

En ég vona, að þér komist að raun um , að vér höfum staðist prófið.

13.)  Á hvern hátt veistu að þú átt trú á Krist?

14.)  Hver heldur þú að sé þinn aðal styrkleiki? Hvernig veitir hann þér stuðning?

15.)  Hver heldur þú að sé þinn aðal veikleiki? Hvernig veldur hann þér skaða?

Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli

vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt.

16.)  Gagnvart hverjum finnur þú fyrir beiskju, ofsa, reiði, eða annars konar óvild?

17.)  Skilgreindu og útskýrðu hvers kyns tregðu við að gera úttekt þína.

Minnstu eymdar minnar og mæðu, malarurtarinnar og eitursins.

sál mín hugsar stöðugt um þetta og er döpur í brjósti mér.

Þetta vil ég hugfesta, þess vegna vil ég vona:

Náð drottins er ekki þrotin,

miskunn hans ekki á enda.

18.)  Hvaða sársauki úr fortíðinni eða mistök fá þig til að finna til þunglyndis?

Sæll er sá maður, sem stenst freistingu,

því að þegar hann hefur reynst hæfur

mun hann öðlast kórónu lífsins,

sem Guð hefur heitið þeim er elska hann.

19.)   Hvað getur þú gert til þess að halda einbeitingu þinni í fjórða sports úttektinni? (T.d. halda þig við dagskrá, gefa þér tíma fyrir hugsanir og íhugun, vinna með félaga, lesa fjórða spors efni, o.s.frv.)

 

Fjórða Spor, fyrri vika.

Við gerðum óttalaust nákvæman siðferðislegan lista

yfir skapgerðareinkenni okkar

1.)  Á hvern hátt hefur þú tilhneigingu til að fela þig fyrir raunveruleikanum? Með því að flýja inn í dagdrauma, reyna að sofa sem mest, með því að sökkva mér ofan í lestur skáldsagna og horfa á sjónvarpsefni og dvd. Semsagt hverfa inn í afþreyingu.

Svikult er hjartað fremur öllu öðru,

og spillt er það. Hver þekkir það?

Ég, Drottinn, er sá, sem rannsaka hjartað,

prófa nýrun, og það til þess

að gjalda sérhverjum eftir breytni hans,

eftir ávexti verka hans.

2.)  Lýstu verknaði eða hegðun sem minnir þig á að þú hefur svikult hjarta. Hugsun, ég tel mig yfirhöfuð vilja öllum vel en stundum hugsa ég þegar ég horfi á annað fólk sem hefur það verra en ég, “ég gleðst vegna þess að þessi hefur það verra en ég”. Og eftir sambandsslit t.d. við konu sem var/er mér kær, er ekki laust við að ég óski henni þess að hún fari verr út úr sambandsslitunum en ég, allavega að hún fari nú ekki að ná sér hraðar en ég og líða vel allt of fljótt. Óbeint vill ég stundum að aðrir hafi það verr en ég.

3.)  Útskýrðu á hvern hátt afneitun veldur þér sársauka eða vandræðum. Með því að horfast ekki í augu við minn innri mann, sálina og hið Guðlega innra með mér og að afneita mér eins og ég kem fyrir í raun og sanni út á við í samskiptum við fólk, geri lítið úr mér sem persónu og sál, tala illa til mín inn á við og neita að horfast í augu við fegurð mína sem Guðlega veru, þá er ég að lifa í lýgi sem veldur andlegum kvölum og kemur mér í vandræði í samskiptum við aðra.

Pétur var niðri í garðinum. Þar kom eina af þernum æðsta prestsins

og sá, hvar Pétur var að orna sér. Hún horfir á hann og segir:

“Þú varst líka með manninum frá Nasaret, þessum Jesú.”

Þvi neitaði hann…. Og hann gékk út í forgarðinn.

Þar sá þernan hann og fór enn að segja við þá, sem hjá stóðu:

“Þessi er einn af þeim.”…….. En hann sór og sárt við lagði:

“Ég þekki ekki þennan mann, sem þér talið um.”

Um leið gól haninn… Þá fór hann að gráta.

4.)  á hvaða sviði lífs þíns grunar þig að afneitunin ráði aðallega ríkjum? Ég held að mín helsta afneitun sé sú að ég sé ekki alveg jafn góð og gild manneskja og hver önnur. Þó er stóra svarið við þessari spurningu það að mín mesta afneitun sú að ég sé trúaður en afneiti tilvist Guðs og þeirri staðreynd að ég þurfi að fá hjálp að ofan við að styrkja mig og geta farið að lifa í kærleka og sátt við sjálfan mig eins og ég er og fólk almennt.

Sá sem þykist vera nokkuð, en er þó ekkert,

dregur sjálfan sig á tálar. En sérhver rannsaki

breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni

í samanburði við sjálfan sig, en ekki miðað við aðra,

því að sérhver mun verða að bera sína byrði.

5.)  Hvernig kemur stolt þitt í veg fyrir að þú sért hreinskilinn við sjálfan þig? Ég vil líta í spegilinn og sjá manneskju sem er sterk, óttalaus, með allt á hreinu og getur tekið sér fyrir hendur hvað sem er í daglegu amstri. Ég er í raun óörugg og óttafull manneskja sem kvíðir fyrir að takast á við lífið. Stolt mitt hindrar mig í að leggja allt mitt sálarlíf á borðið og sjá hvað ég er viðkvæmur. En í raun með því að horfast í augu við mína viðkvæmni þá er ég að sjá styrk minn.

Rannsökum breytni vora og prófum og snúum oss til Drottins.

6.)  Hverjur kvíðir þú vegna minnga úr fortíð þinni? Ég kvíði því að falla aftur og aftur í sama hjólfarið, það er eins og ég hafi ekkert Þol í neinu sem ég tek mér fyrir hendur þetta á bæði við um áhugamál og tilfinningamál jú og líka vinnu. Ég fæ brennandi áhuga svo er eins og hann renni ofaní sandinn og yfir mig kemur áhugaleysi og doði. Vegna þess kvíðir mig fyrir framtíðinni, líka að ég muni aldrei finna mig í neinu til langtíma.

7.  Hvaða hegðun er það hjá þér sem skaðar líf þitt mest? Útskýrðu. Að fela mig fyrir lífinu og hinum sanna kjarna hið innra með mér, að horfast ekki á augu við aðstæður hverju sinni og mæta þeim með æðruleysi og kærleika. Að vera meðvirkur að allt of miklu leyti í samskiptum.

Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt,

rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,

og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi,

og leið mig hinn eilífa veg.

8.)  Hvað hindrar þig í því að biðja Guð að rannsaka þig þekkja hjarta þitt? Ég er ekki enn búinn að opna hjarta mitt fyrir Guði (æðri mætti). Ég er enn í þeim sporum að vera í efa og jú ótta. Kvíði minn gagnvart lífinu fylgr mér í (van)trú minni á líf etir dauða þessa líkama.

9.)  Skráðu aðal vanþóknunarefni þitt. Hvernig truflar það líf þitt? Ég hef mjög litla trú á sambræðrum/systrum mínum, svona á heildina á litið. Ég hef í gegnum árin verið mjög dapur yfir því hvað það er mikil vonska í heiminum og þessi vanþóknun hefur valdið mér kvíða, depurð og andlegum doða.

Vitið, bræður mínir elskaðir: Hver maður skal vera

fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.

Því að reiði manns ávinnur ekki það, sem rétt er

fyrir Guði. Leggið því af hvers konar saurugleik

og alla vonsku og takið með hógværð á móti

hinu gróðursetta orði, er frelsað getur sálir yðar.

10.)  Skráðu lista yfir aðstæður þar sem þú varðst reiður vegna vanþóknunar þinnar.  Ég hef nú oftar en einu sinni kíkt út á lífið með vinum eftir að hafa fengið mér í ltilu tána. Meðan ég er með fólki sem ég þekki og mér líður vel með og þá í heimahúsi er ég í góðum gír en um leið og ég kem í bæinn og er búinn að vera á skemmtistöðum í einhvern tíma fer mér að líða ver og ver og fer að finna til vanmáttar og verða reiðari og reiðari út í sjálfan mig fyrir að t.d. geta ekki daðrað við hitt kynið. Þá á ég það til að verða svo reiður og vonsvikinn út í sjálfan mig að mér finnst ég algerlega vera einskis virði, lúser.

Þriðja Spor, seinni vika.

 

Við tókum þá ákvörðun að láta vilja okkar og líf

lúta handleiðslu Guðs, samkvæmt skilningi okkar á honum

 

Betra er að leita hælis hjá Drottni,

en að treysta mönnum

betra er að leita hælis hjá Drottni,

en að treysta tignarmönnum.

11.)  Í hverju hefur traust þitt til manna brugðist? Við skoðun á mannkynssögunni er ekki annað að sjá en að við mannfólkið höfum þroskast lítið sem ekkert nema ef vera skyldi í þá átt að valdasýki, fégræðgi, plott, prettir og lítil samkennd virðist vera ráðandi og það sem öllu skiptir eru veraldleg gæði sama þó þau kosti volæði, kvalræði og mannslíf fyrir stórann hluta mannkyns. Ég er óskaplega vonlítill fyrir hönd okkar mannkyns.

Þá gekk hann lítið eitt áfram, féll fram á ásjónu sína,

baðst fyrir og sagði: “Faðir minn, ef verða má,

þá fari þessi kaleikur framhjá mér.

Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.”

12.)  Hvernig hjálpar þessi atburður í líf Krists þér til að tengjast erfiðleikum þínum við þriðja sporið? Ég veit nú ekki hvort hann sé að hjálpa mér nokkuð, hann fær mig til að hugsa og þá á þann veg að ég spyr mig er ég bara leiksoppur einhvers æðri veru sem snýr mér í kringum “imyndaðan” litla fingur sér og fer með mig að vild án þess að ég fái nokkru þar ráðið eða getur verið að það sé einhver stór mynd og áætlum sem ég tek þátt í og hef haft hönd í bagga með að ákveða hverskonar “verkefni” ég tók mér fyrir hendur nú í þessu lífi. Í framhaldi af því velti ég því fyrir mér hvort lífið hér á jörðinni sé einskonar skóli til þess að þroska sálina.

13.)  Hvernig höfðar til þín sá fúsleiki til að lúta vilja föðurins sem Kristur sýndi í lokin? Það er engan fúsleika þar um að tala, mér hugnast ekki að vera viljalaust verkfæri einhvers sem togar í spotta tengda mér og ég hoppa og dansa eftir því. Ég stend í þeirri trú að það sem ég er að glíma við í þessu lífi sé einskonar sameiginleg ákvörðun mín og Guðs þar sem ég er með brot af Guði í mér sem sál, því sálin er brot af Guði sjálfum.

14.)  Hvaða kross er það sem þú berð sem knýr þig til að leita til Guðs um leiðsögn? Kross vonleysis, depurðar, ótta, uppgjafar, andleysis og dauðahugsuna, ég finn að það er eitthvað inn í hjarta mér sem er leitandi og ég finn á mér að það eru ósvaraðar spurningar sem hjarta mitt vill fá svarað. Það er einhver djúpstæð tilfinning í mér sem er að segja mér að leita og ef ég næ að treysta, trúa og hlusta á innsæi mitt þá muni sannleikurinn opnast fyrir mér.

Ég er krossfestur með Kristi.

Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér.

Lífinu sem ég lifi nú hér á jörð,

lifi ég í trúnni á Guðs son,

sem elskaði mig og lagði sjálfan sig

í sölurnar fyrir mig.

15.)  Á hvern hátt reynir þú að Kristur lifir í þér? Útskýrðu hvernig nærvera hans hjálpar þér að glíma við þitt daglega líf. Ég reyni það ekki, ég finn ekki að Kristur sé með mér, ég er ekki að finna fyrir nærveru hans á einn eða neinn hátt svo þessari spurningu er ómögulegt fyrir mig að svara á annan hátt en svona hér og nú.

Fel þú Drottni verk þín,

Þá mun áformum þínum framgengt verða.

16.)  Hefur þú séð einhverjar breytingar hjá þér sjálfum sem hægt er að rekja til sporavinnunnar? Segðu hvernig. Já það hef ég gert, þegar kemur að skoðanaskiptum er ég farinn að standa meir og meir með sjálfum mér í stað þess að lúfa en á sama tíma er ég líka farinn að temja mér æðruleysi og finna hvenær er bara best að draga sig úr umræðum og gefa bara eftir og vera á sama tíma sáttur inn í sjálfum mér, yndisleg tilfinning. Ég er líka farinn að skilja sjálfan mig betur og betur og verða meira og meira sáttur inn í sjálfum mér.

17.)  Hvernig áætlar þú að iðka þriðja sporið í daglegu lífi þínu? Með því að velta fyrir mér hvar og hvernig ég og Guð eigum eftir að ná saman þar sem ég get reitt mig á stuðning og styrk hans í daglegu lífi og þá sérstaklega fengið stuðning á erfiðum stundum sem munu koma.

Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig, mun

einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri. Og hann mun gjöra

meiri verk en þau, því ég fer til föðurins.

Og hvers sem þér biðjið í mínu nafni, það mun ég gjöra,

svo að faðirinn vegsamist í syninum.

18.)  Kristur mun hjálpa þér að afhenda Guði vilja þinn en þú verður að biðja hann. Lýstu bænalífi þínu og hvernig það er hluti af bata þínum. Bænalíf mitt er frekar einfalt, ég hugsa oft um Krist og velti fyrir mér hvernig ég geti fundið fyrir návist hans (kannski rembist ég fullmikið). Ég er ekki frá því að vangaveltur mínar um andlegt líf síðan ég byrjaði í sporunum sé að verða mér mjög mikilvægt og ég er að leyfa mér að velta því fyrir mér, því í gegnum árin hef ég barist gegn því af krafti en það hefur alltaf verið gjá í brjósti mér hvað það varðar, ég er á hægri en öruggri leið við að finna sannleikann í brjósti mér.

Því að ég þekki þær fyrirætlanir, sem ég hefi í hyggju með yður -

segir Drottinn - fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju,

að veita yður vonarríka framtíð. Þá munuð þér ákalla mig

og fara og biðja til mín, og ég mun bænheyra yður.

Og þér munuð leita mín og finna mig.

Þegar þér leitið mín af öllu hjarta,

vil ég láta yður finna mig - segir Drottinn.

19.)  Hvers konar kærleiksríkri umhyggju vonast þú eftir þegar þú afhendir sjálfan þig handleiðslu Guðs? Finna sannleikann og einingu með Al-verunni sem ég er hluti af sem mun hjálpa mér að finna frið og eilifan kærleik í hjarta mínu til allra lifandi vera.

Þriðja Spor, fyrri vika

Við tókum þá ákvörðun að láta vilja okkar og líf

lúta handleiðslu Guðs, samkvæmt skilningi okkar á honum

 

1.)  Hvað atriði í lífi þínu urðu til þess að þú vissir að þú yrðir að afhenda vilja þinn og líf handleiðslu Guðs? Er ég búinn að því? Ég myndi segja að það sé atburðarrás í lífi mínu hvað varðar mín andlegu veikindi sem hafa leitt mig til þess að skoða vel og vandlega hvaða stöðu og hlutverki ég hefi að gegna í þessu lífi og “öðrum ” lífum. Ég vil geta fundið hinn eina sannleika lífs og liðins í hjarta mér.

Treystu drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið

hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum,

þá mun hann gjöra stigu þína slétta.

2.)  Hvaða viðhorf eða ranghugmyndir eru hindrun þín sem kemur í veg fyrir að þú treystir Guði, t.d. sú trú að Guð sé fjarlægur, standi á sama eða sé grimmur?  Þegar ég lít yfir mannkynssöguna og velti fyrir mér hvernig fólk almennt hefur haft það og hefur það í dag og hvernig við höfum komið fram hvort við annað og gerum enn í nafni t.d. trúar og Guðs og viðurstyggðin sem framin hefur verið og er framin enn í dag, og hvernig margt fók má líða allskyns kvalir og vanlíðan daginn inn og daginn út, þá er erfitt að trúa. Og hvað þá um ranghugmyndir og túlkanir kirkjunnar sjáfrara, þar sem verið er að nota boðskap til að halda fólki í gíslingu.

Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð.

Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.

3.)  Lýstu einhverju tilviki þegar þér fannst Guðs andi leiða þig.  Því miður þá man ég ekki skýrt eftir slíku. Þó má kannski segja að viðkynni mín af Yoga heimspekinni hafi verið tímabil þar sem ég fann mig trúarlega séð og fannst ég loks vera að finna Guð. Það kom viss sannfæring í hjarta mitt.

4.)  Hvaða þætti lífs þíns ert þú ófús að láta af hendi við Guð? Útskýrðu hvers vegna. Það fyrsta sem mér dettur í hug eru vissar líkamlegar hvatir svo sem kynlíf, drykkja og hraðakstur. Þetta eru svona augnablik þar sem ég get fundið mikla vellíðan og gleymt vanlíðan í dagsins amstri.

því brýni ég yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Guðs,

bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn.

Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi.

5.)  Þegar þú afhendir Guði stjórnina á lífi þínu, minnkar það steitu. hvers vegna heldur þú að þetta sé svona? Ég ímynda mér að það sé einhvern vegin svona: með því að gera Guð að meðstjórnanda í lífi mínu og lúta leiðsögn hans í gegnum lífsins göngu, þá kemur lífð til með að vera mér spennandi og ögrandi verkefni. Ekki ótti og kvíði. Mér takist að lúta leiðsögn Guðs.

6)  Hvernig valda æskuminningarnar þér ennþá ótta eða hafa áhrif á þig á annan hátt? Þar sem ég man lítið sem ekkert úr æsku minni er mér ómögulegt að svara þessari spurningu., þó held ég að það geti verið að það sé nokkur sorgsem ég er að finna fyrir gagnvart æsku minni. Ég hef jú alltaf lifað í ótta og kvíða “saga lífs míns”.

En öllum þeim, sem tóku við honum,

gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim er trúa á nafn hans.

Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild

né manns vilja, heldur af Guði fæddir.

7.)  Lýstu sambandi þínu við Guð í barnæsku þinni. Sama hér á engar sem litlar minningar úr æsku minni . Þó man ég eitt atriði þar sem ég var veikur af hettusótt og var rúmfastur í um eina viku þegar ég var ellefu ára gamall. Þá einn daginn er ég lá í rúminu fann ég fyrir lamandi ótta svo mikinn að ég mátti varla mæla. Ég stóð í þeirri sannfæringu um stund að ég væri að fara að deyja “nei ég vissi það”. Annars held ég hún hafi verið svona létt barnatrú. Jesús var góður og gætti barna og þessháttar.

8.)  Þriðja sporið getur verið tækifæri til að byrja pp á nýtt og lagfæra minningar þínar um sára barnæsku. Hvað er það úr barnæsku þinni sem þarfnast helst lagfæringar t.d. traust, leikur, sambönd, ótti, tilfinningar, trú o.s.frv.? Útskýrðu. Fyrst og fremst held ég það sé óttinn. Tilfinningar, traust, sambönd og trú spila líka gríðarlega stóra rullu hvað þetta varðar og leikur sjálfsagt enn. Og traust. Eins og er þá sé ég svarið þannig að óttinn sé nokkus konar undirrót alls þessa vanlíðanar sem ég haf fundið í gegnum mín fullorðins ár. Í gegnum óttann hef ég fjarlægst ljósið meri og meir, ljósið er sannleikurinn, jafnvægið, egóið, friðurinn og takmarkið í átt að Nirvana.

Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar

og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok

og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta

9.)  Hvaða byrði hvílir þyngst á hjarta þínu? Lævís óttinn sem ætlar mig að kæfa í myrkri og kulda. Ljótleikinn í raunveruleika mannsins, kvíðinn, depurðin og að takast á við hið dags daglega streð og óvissan um hvað býr að handan. Má búast við því að loknum þessum lífsins dansi að þá taki við meiri ljótleiki? Munum við mannfólkið aldrei komast upp úr foraðinu þar sem við níðum hvert annað?

10.) Hvernig munt þú vita hvenær sjálfsmynd þín fer að lagast? Þegar óttinn og depurðin í hjarta mér fer að lægja og ég fer að verða bjartsýnni fyrir mannkyns hönd, ég hætti að vera of meðvirkur. Og ég fer að finna fyrir kærleika og sannleika Al-vitundarinnar í hjarta mínu.