Tólf spora vinna mín hjá Vinum í bata.

Ég var dreginn inn á kynningarfund hjá Vinum i bata nú í haust, við fyrstu kynni leist mér svona rétt sæmilega á þetta, fyrstu þrír fundirnir eru opnir til þess að gefa fólki tækifæri til að velta fyrir sér og finna inn í sér hvort sjálfskoðun sem þessi sé nokkuð sem þú ert tilbúinn í, þar sem þér gefst tækifæri til að bæta lífsgæði þín með góðu fólki. Nú ég verð að segja að á þriðja kynningarfundi var búið að krækja í mig og ég tók þá ákvörðun að hella mér út í þessa vinnu til að bæta lífsgæði mín. Ég kem til með að blogga hér á þann hátt, að ég mun skrifa spurningarnar úr sporavinnunni og mín svör.

Strax á kynningarfundunum byrjum við að svara spurningum svo tekur sporavinnan við og þá er hópunum lokað og þú kemur til með að vinna með sama fólki allann veturinn við að kafa ofaní sálarlíf þitt. Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér þetta úrræði vil ég benda síðu vina í bata sem er viniribata.is

Þar sem þetta eru mjög persónuleg skrif hef ég ákveðið að koma ekki fram undir eigin nafni. Það getur vel verið að ég komi undir nafni einn góðan veðurdag en sá dagur er ekki dagurinn í dag. Eins og er þori ég það ekki.

Hugleiðingar mínar og svör skrifaði ég niður í stílabók, ég mun ekki á nokkurn hátt reyna að ritskoða þau. En á hinn bóginn mun ég laga stafsetningarvillur og málfræði eftir fremsta megni. Öll svör sem koma fram við spurningunum eru mínar hugleiðingar inn á við og mín sjálfsskoðun, rétt eða rangt á ekki við, svörin bara eru. Er það einlæg ósk mín að þau muni koma sem flestum til hjálpar.