Þriðja Spor, seinni vika.

 

Við tókum þá ákvörðun að láta vilja okkar og líf

lúta handleiðslu Guðs, samkvæmt skilningi okkar á honum

 

Betra er að leita hælis hjá Drottni,

en að treysta mönnum

betra er að leita hælis hjá Drottni,

en að treysta tignarmönnum.

11.)  Í hverju hefur traust þitt til manna brugðist? Við skoðun á mannkynssögunni er ekki annað að sjá en að við mannfólkið höfum þroskast lítið sem ekkert nema ef vera skyldi í þá átt að valdasýki, fégræðgi, plott, prettir og lítil samkennd virðist vera ráðandi og það sem öllu skiptir eru veraldleg gæði sama þó þau kosti volæði, kvalræði og mannslíf fyrir stórann hluta mannkyns. Ég er óskaplega vonlítill fyrir hönd okkar mannkyns.

Þá gekk hann lítið eitt áfram, féll fram á ásjónu sína,

baðst fyrir og sagði: “Faðir minn, ef verða má,

þá fari þessi kaleikur framhjá mér.

Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.”

12.)  Hvernig hjálpar þessi atburður í líf Krists þér til að tengjast erfiðleikum þínum við þriðja sporið? Ég veit nú ekki hvort hann sé að hjálpa mér nokkuð, hann fær mig til að hugsa og þá á þann veg að ég spyr mig er ég bara leiksoppur einhvers æðri veru sem snýr mér í kringum “imyndaðan” litla fingur sér og fer með mig að vild án þess að ég fái nokkru þar ráðið eða getur verið að það sé einhver stór mynd og áætlum sem ég tek þátt í og hef haft hönd í bagga með að ákveða hverskonar “verkefni” ég tók mér fyrir hendur nú í þessu lífi. Í framhaldi af því velti ég því fyrir mér hvort lífið hér á jörðinni sé einskonar skóli til þess að þroska sálina.

13.)  Hvernig höfðar til þín sá fúsleiki til að lúta vilja föðurins sem Kristur sýndi í lokin? Það er engan fúsleika þar um að tala, mér hugnast ekki að vera viljalaust verkfæri einhvers sem togar í spotta tengda mér og ég hoppa og dansa eftir því. Ég stend í þeirri trú að það sem ég er að glíma við í þessu lífi sé einskonar sameiginleg ákvörðun mín og Guðs þar sem ég er með brot af Guði í mér sem sál, því sálin er brot af Guði sjálfum.

14.)  Hvaða kross er það sem þú berð sem knýr þig til að leita til Guðs um leiðsögn? Kross vonleysis, depurðar, ótta, uppgjafar, andleysis og dauðahugsuna, ég finn að það er eitthvað inn í hjarta mér sem er leitandi og ég finn á mér að það eru ósvaraðar spurningar sem hjarta mitt vill fá svarað. Það er einhver djúpstæð tilfinning í mér sem er að segja mér að leita og ef ég næ að treysta, trúa og hlusta á innsæi mitt þá muni sannleikurinn opnast fyrir mér.

Ég er krossfestur með Kristi.

Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér.

Lífinu sem ég lifi nú hér á jörð,

lifi ég í trúnni á Guðs son,

sem elskaði mig og lagði sjálfan sig

í sölurnar fyrir mig.

15.)  Á hvern hátt reynir þú að Kristur lifir í þér? Útskýrðu hvernig nærvera hans hjálpar þér að glíma við þitt daglega líf. Ég reyni það ekki, ég finn ekki að Kristur sé með mér, ég er ekki að finna fyrir nærveru hans á einn eða neinn hátt svo þessari spurningu er ómögulegt fyrir mig að svara á annan hátt en svona hér og nú.

Fel þú Drottni verk þín,

Þá mun áformum þínum framgengt verða.

16.)  Hefur þú séð einhverjar breytingar hjá þér sjálfum sem hægt er að rekja til sporavinnunnar? Segðu hvernig. Já það hef ég gert, þegar kemur að skoðanaskiptum er ég farinn að standa meir og meir með sjálfum mér í stað þess að lúfa en á sama tíma er ég líka farinn að temja mér æðruleysi og finna hvenær er bara best að draga sig úr umræðum og gefa bara eftir og vera á sama tíma sáttur inn í sjálfum mér, yndisleg tilfinning. Ég er líka farinn að skilja sjálfan mig betur og betur og verða meira og meira sáttur inn í sjálfum mér.

17.)  Hvernig áætlar þú að iðka þriðja sporið í daglegu lífi þínu? Með því að velta fyrir mér hvar og hvernig ég og Guð eigum eftir að ná saman þar sem ég get reitt mig á stuðning og styrk hans í daglegu lífi og þá sérstaklega fengið stuðning á erfiðum stundum sem munu koma.

Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig, mun

einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri. Og hann mun gjöra

meiri verk en þau, því ég fer til föðurins.

Og hvers sem þér biðjið í mínu nafni, það mun ég gjöra,

svo að faðirinn vegsamist í syninum.

18.)  Kristur mun hjálpa þér að afhenda Guði vilja þinn en þú verður að biðja hann. Lýstu bænalífi þínu og hvernig það er hluti af bata þínum. Bænalíf mitt er frekar einfalt, ég hugsa oft um Krist og velti fyrir mér hvernig ég geti fundið fyrir návist hans (kannski rembist ég fullmikið). Ég er ekki frá því að vangaveltur mínar um andlegt líf síðan ég byrjaði í sporunum sé að verða mér mjög mikilvægt og ég er að leyfa mér að velta því fyrir mér, því í gegnum árin hef ég barist gegn því af krafti en það hefur alltaf verið gjá í brjósti mér hvað það varðar, ég er á hægri en öruggri leið við að finna sannleikann í brjósti mér.

Því að ég þekki þær fyrirætlanir, sem ég hefi í hyggju með yður -

segir Drottinn - fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju,

að veita yður vonarríka framtíð. Þá munuð þér ákalla mig

og fara og biðja til mín, og ég mun bænheyra yður.

Og þér munuð leita mín og finna mig.

Þegar þér leitið mín af öllu hjarta,

vil ég láta yður finna mig - segir Drottinn.

19.)  Hvers konar kærleiksríkri umhyggju vonast þú eftir þegar þú afhendir sjálfan þig handleiðslu Guðs? Finna sannleikann og einingu með Al-verunni sem ég er hluti af sem mun hjálpa mér að finna frið og eilifan kærleik í hjarta mínu til allra lifandi vera.