Sjötta Spor: fyrri vika

1.) Fjórða og fimmta sporið hafa eflaust valdið því að þú hefur rifjað upp sársaukann sem þú hefur valdið sjálfum þér og öðrum. Hverjar af þessum sársaukafullu minningum finnst þér gera þig fúsari til breytinga? Það er nú ekki svo að það sé einhver ein minning sem upp úr stendur miklu frekar er það sú vinna sem ég hef tekið mér fyrir hendur hjá Vinum í bata sem hefur gert mér kleyft t.d. að svara spurningunum í vinnu heftinu sem aftur hafa gert það að verkum að það eru heilmargar tilfinningar sem og sjálfmyndin sem ég er farinn að sjá glöggvar og tilfinningar sem ég vil losna við t.d. skömmin og sektarkendin sem hafa fylgt mér frá því ég man eftir mér.

Gjörið því hugi yðar viðbúna og vakið. Setjið alla von yðar
til þeirrar náðar, sem yður mun veitast við opinberun Jesú Krists.
verið eins og hlýðin börn og látið eigi framar lifnað yðar mótast af
þeim girndum, er þér áður létuð stjórnast af í vanvisku yðar.

2.) Hversu langt nær traust þitt núna? Treystir þú Kristi til að fjarlægja bresti þína eða treystir þú á þinn eiginn viljastyrk til að breytast? Útskýrðu. Nei ég er ekki að treysta Kristi eða réttara sagt þá er ég ekki sannfærður um tilvist hans, eins mikið og ég vil finna þá gerist það bara ekki (ég þrái en eigi fæ). Ég er í raun að treysta nánast alfarið á sjálfan mig. Trú mín er samt að styrkjast en hún er ekki beint á línu kristninnar.

Þá munt þú gleðjast yfir Drottni og
Hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.
Fel Drottni vegu þina og treyst honum. Hann mun vel fyrir sjá.

3.) Á hvern hátt felur þú Guði bata þinn? Ég geri það á þann hátt að mín trú er t.d. þannig að ég er á þvi að sál mín sé leiftur af Guði, ég sé hluti af honum og þegar við sameinumst þá erum við eitt, þannig sé ég að Guð er að verka í gegnum mig, það er mitt að finna hann í þessu lífi, ég vil fela honum hjarta mitt.

Ekki er svo, að ég hafi þegar náð því eða sé þegar fullkominn.
En ég keppi eftir því, ef ég skyldi geta höndlað það,
með því að ég er höndlaður af Kristi Jesú.
Bræður, ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það.
En eitt gjöri ég.
Ég gleymi því sem að baki er, en seilist eftir því sem framundan er,
og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum,
sem Guð hefur kallað oss til fyrir Krist Jesú.

4.) Hvaða brestir eru enn að tefja fyrir þér í bata þínum? Meðvirkni, Skömm, sektarkennd, brotin sjálfsmynd og ótti við að takast á við lífið með öllu sem því fylgir. Ég er voða hræddur við dóm fólks og samfélagsins um að ég sé ekki verðug manneskja til að eiga í heilbrigðu og eðlilegur sambandi við fólk og að ég muni lifa með alla mína vantrú og ótta það sem eftir lifir, uppfullur af skömm og sektarkennd.

5.) Hvaða veikleikar eru það sem þú ert ekki algerlega tilbúinn til að láta fjarlægja? Útskýrðu hvers vegna þú ert ennþá háður þeim? Ég man mikið frekar eftir brestum sem ég vil láta fjarlægja og þeir eru ansi margir. En þó er einn sem mér dettur í hug og það er sjálfbyrgingsháttur (sjálfselska) þar sem ég leitast eftir að fólki finnist ég vera alveg rosalega yndisleg og sérstök manneskja og þörfina fyrir að fá bæði jákvæð ummæli og upphefð til að bæta upp brotna sjálfsmynd, ég vil að fólk sjái mig sem einstaka manneskju.

Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti
með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að
reyna hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.

6.) Við nálgumst Guð til þess að læra að þekkja vilja hans og fara eftir honum. Útskýrðu hvernig þú færist nær Guði, t.d. með helgun, bæn, samfélagi, notkun dagbókar, með því að hugleiða o.s.frv. Í samfélagi reyni ég að nálgast hann með samræðum um trú og hvað felist á bakvið hana, ég vil velta trúnni svolítið fyrir mér og svo hugsa ég töluvert mikið um trúarlíf mitt sem er nú ekki mikið en bið þó einstaka sinnum, trú er persónubundinn.

7.) Skráðu dæmi um bænir þínar sem sýna að þú gerir kröfur til Guðs í stað þess að biðja um að vilji hans verði í lífi þínu eða að segja frá sannleikanum um sjálfan þig. Ég man ekki til þess að ég hafi nokkurn tíma gert kröfur í þau skipti sem ég hef beðið, ég held ég hafi ekki gert það en er samt ekki alveg hundrað prósent viss. Bænir mínar hafa frekað verið eins og bón.

Auðmýkið yður fyrir Drottni, og hann mun upphefja yður.

8.) Við sýnum auðmýkt okkar fyrst frammi fyrir Guði í bæn. Skrifaðu bæn í einni setningu þar sem þú í auðmýkt segir Guði sannleikann um sjálfan þig varðandi einvhern sérstakan skapgerðarbrest. Kæri Guði ég er uppfullur af skömm og sektarkennd, ég bið þig Guð um að hjálpa mér að losa mig við þennann sársauka í lífi mínu.

Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum
örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.
En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast
er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi.

9.) Skráðu hvern þann vafa, sem í þér býr og hindrar það að þú sért reiðubúinn til þess að láta Guð fjarlægja skapgerðarbresti þína. Fyrst og fremst er það óttinn við að mér muni á engann hátt takast að ná að byggja mig upp og muni falla aftur og aftur í skömm og sektarkennd, vanmátt og ótta. Vísindahyggja mín hindrar mig þónokkuð í að geta fundið fyrir æðri mætti, mér hættir til að vilja finna sannanir sem er nú samt ekki galið þegar að vísindum kemur en er nú ekki að hjálpa mér að finna minn æðri mátt.