Sjöunda Spor: fyrri vika

1.)   Hvaða sérstöku blessun, jafnvel einhverja smávægilega, hefur Guð sent þér frá því að þú byrjaðir í Tólf spora námsefni þínu til bata? Sú blessun er ég hef fundið fyrir fellst í því að ég er að sjá persónuna mig í skýrara ljósi og farið að finna æ meiri kærleik til sjálfs mín sem aftur skilar sér í auðveldari og betri samskiptum við fólk í kringum mig, ég er allur að koma til. Og er farinn að standa fyrir mínu.

 

Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn.

Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.

Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða.

Sakir nafns þíns, Drottinn, fyrirgef mér sekt mína, því að hún er mikil.

2.)   Hvaða sérstöku verkfæri hefur Guð notað til að leiðbeina þér og kenna þér hvað er rétt? (t.d. Biblíuna, bækur, fundi, trúnaðarmenn, rjáðgjafa, presta o.s.frv.)  Ég er að lesa tvær bækur um andlega íhugun Bók Emanúals og Tunglskin sem fellur á tunglið sem fjallar um advaita vedanta árþúsunda gamla andlega hefð sem á rætur sínar og meginsögu  meðal Indverja. Svo er ég með trúnaðarmann sem hefur komið eins og Guðs gjöf inn í líf mitt en þá gjöf hef ég illa nýtt.

 

Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar

kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.

Og friður Guðs sem er æðri öllum skilningi

mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.

3.)   Líður þér betur þegar þú biður? Ef svarið er játandi, þá á hvern hátt líður þér betur? Ef það er nei, í hvaða erfiðleikum átt þú með að biðja? Ég er farinn að biðja æ oftar en enn sem komið er er ég ekki að finna fyrir mætti bænarinnar en held þó ótrauður áfram, erfiðleikar mínir eru árekstrar á milli andlegrar hugsunar og vísindahyggju mína þar sem ég hef knýjandi þörf fyrir að fá sannanir.

 

4.)   Skráðu að hvaða leyti þú finnur fyrir hindrunum varðandi þann árangur sem hefur náðst í að fjarlægja bresti þína? Athyglisbrestur og einbeitingaskortur eru að hefta mig töluvert, það er mikið af hugsanastomum í gangi í heila mínum og ótti við að ná og/eða að ná ekki bata. Ég óttast töluvert að vera það öruggur, ánægður og hamingjusamur að ég er svolítið hræddur um að ég kalli á hrun og afturför í bata mínum. Ég hef meira og minna verið að berjast við kvíðaraskanir og  þunglyndi allt mitt líf og þekki því ekki langvarandi vellíðunar skeið.

 

ÞVERSAGNIR BÆNARINNAR

Ég bað Guð um styrk til að ég gæti náð árangri

Ég var gerður veikburða svo að ég mætti læra að hlýða í auðmýkt

Ég bað um góða heilsu svo að ég gæti gert ennþá meira

Ég hlaut fötlun svo að ég gæti unnið meiri afrek

Ég bað um ríkidæmi svo að ég öðlaðist hamingju

Ég hlaut fátækt svo að ég yrði vitur

Ég bað um völd svo að ég hlyti lofstír manna

Ég fékk veiklyndi til að ég fyndi hve ég þarfnaðist Guðs

Ég bað um að öðlast allt svo að ég gæti notið lífsins

Ég hlaut líf svo að ég gæti noði alls

               Ég fékk ekkert af því sem ég bað um – en allt sem ég vonaðist eftir              

Samt sem áður og þrátt fyrir mig var ósögðum bænum mínum svarað

Ég hef hlotið meiri blessun en allir aðrir.

5.)   Hvernig endurspegla þversagnir bænarinnar reynslu þína af bæninni?  Ég tengi hana ekki bæninni.  Það fyrsta sem kom upp í hugann á mér var 2007 heilkennið, þar sem við flest öll vorum svo ofboðslega upptekinn af veraldlegum gæðum að við  hundsuðum algerlega andlega vellíðan okkar, allt þjóðfélagið var á hvolfi við að eignast einbýlishús, jeppa, snjósleða, stærri brjóst og allskonar drasl, utanlandsferðir ekki sjaldnar en einu sinni á ári.  Því meiri veraldlegar eignir og peninga því betra og farsælla líf, peningar voru allsherjar plástur á öllum eymslum jafnt líkamlegum sem andlegum, því meiri peningar því betri líðan. En svo er nú ekki minn kæri vin.

 

Ef vér játum syndir vorar,

þá er hann trúr og réttlátur,

svo að hann fyrirgefur oss syndirnar

og hreinsar oss af öllu ranglæti.

6.)   Þrátt fyrir það að Guð sé trúr og fyrirgefi og hreinsi okkur, höfum við samt tilhneigingu til að efast. Hvar í lífi þínu efast þú um getu Guðs og vilja til þess að hreinsa þig? Fyrst og fremst efast ég um tilurð Guðs vegna áróðurs trúarstofnana og þá sérstaklega þá mynd sem trúarit hinna mismunandi trúarbragða setja fram í krafti þess að hið ritaða orð þessara bóka sé heilagur sannleikur, þær eru heimildir. Jesú Kristur útskýrði þetta best „musteri Guðs er innra með yður“ Amen!

 

7.)  Hvað er þetta eitthvað  sem var tekið frá þér sem barni áður en þú varst reiðubúinn til þess að láta það af hendi? Því er auðsvarað, minningar! Ég hef verið að spyrjast fyrir um æsku mína og það er ekki annað að heyra en ég hafi átt góða og kærleiksríka æsku og innsæi mitt segir mér að það sé rétt enda eru mínir nánustu vænar og vel gerðar manneskjur að mestu leyti. Ég var víst alveg afskaplega feimið og óframfærið barn sem hékk að mestu leyti í pilsfaldi móður minnar og systir mín sem er tveim árum eldri en ég tók að sér að vera minn verndari (einskonar lífvörður) svo ég var undir góðum verndarvængjum.

 

Hver sem upphefur sjálfan sig mun auðmýktur verða,

En sá sem auðmýkir sjálfan sig,

mun upphafinn verða.

8.)   Við sýnum auðmýkt okkar fyrst í samskiptum okkar við aðra og síðan frammi fyrir Guði. Hvernig hefur þú sýnt auðmýkt í verki gagnvart öðrum? Ég hef sýnt auðmýkt með því  t.d. að gefa fólki sem við fyrstu kynni mér finnst leiðinlegt og hef engan áhuga á að kynnast betur og átti til að skjóta föstum leiðinda skotum á tækifæri og oftar en ekki með því að sýna æðruleysi og auðmýkt hefur fólk komið mér skemmtilega á óvart og mér hefur farið líka betur og betur við.  

 

9.)   Hvað ótti kemur upp á yfirborðið hjá þér þegar þú hugsar um að treysta Guði fyrir framtíð þinni í stað þess að treysta sjálfum þér? Ég vil klárlega treysta æðri mætti fyrir framtíð minni það veldur mér ekki ótta. Það sem hinsvegar veldur mér ótta er að mér takist ekki að finna fyrir æðri mætti í hjarta mér sem ég þrái samt að finna. Það er einhver hindrun þarna sem ég er ekki alveg að átta mig á, vísindamaðurinn hefur jú sín áhrif en það er eitthvað meira sem ég þarf að komast að hvað er.