Annað Spor, seinni vika.

Við fórum að trúa, að máttur okkur æðri,

gæti gert okkur heil að nýju.

 

 

Ekki svo, að vér séum sjálfir hæfir og eitthvað komi frá

oss sjálfum, heldur er hæfileiki vor frá Guði.

11.)  Á hvern hátt vonast þú til að samband þitt við Guð muni bæta getu þína til að fást við daglegt líf? Að hann muni hjálpa mér til að takast á við daglegt streð, leiða mig og lýsa leið mína til bata úr veikindum mínum, á þeim forsendum að ég taki fulla ábyrgð á bataferli mínu.

12.)  Hver eru viðbrögð þin við þeirri staðreynd að bati krefst þolinmæði og skilnings og að hann verði ekki tafarlaus? Viðbrögð mín eru einfaldlega þau að mér finnst þetta vera algerlega rökrétt. Ég geri mér fulla grein fyrir því að jafn stórt verkefni og það að bæta lífsgæði mín krefst mikillar þolinmæði af mér og sömuleiðis ríkum skilningi.

Veistu þá ekki? Hefir þú ekki heyrt? Drottinn er eilífur Guð

er skapað hefir endimörk jarðarinnar. Hann þreytist ekki,

hann lýist ekki, speki hans er órannsakanleg.

Hann veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum

þróttlausa. Ungir menn þreytast og lýjast,

og æskumenn hníga, en þeir, sem vona á Drottin

fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir.

Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.

13.)  Á hvaða sviði lífs þíns hefur þú reynt að styrkur guðs kæmi í stað vanmáttar þíns? Ég get ekki sagt, ég hafi nokkurn tíma fundið afgerandi fyrir því að Guð hafi styrkt mig á nokkurn hátt og þó er ekki laust við að í gegnum leit mína að trú þá hafi nú kviknað ljóstýra af og til þegar ég t.d. hef veriða að kynna mér Búddisma og Jóga heimspeki.

14.)  Hvar í lífi þínu sýnir þú af þér einþykkni eða óhlýðni gagnvart Guði? Ég hef áður fyrr talað um trú og trúarbrögð á niðrandi máta, þar á meðal auðvitað Guð og Jesús sem ég haf talað um í gríni á niðrandi máta. Ég hef þráast og þrjóskast við að taka í sátt trú á líf eftir dauðann sem ég hef þó nánast stöðugt verið að velta fyrir mér og er enn að velta fyrir mér.

15.)  Á hvaða sviði lífs þíns þarft þú að sýna meiri varfærni eða háttprýði? Gagnvart sjálfum mér, ég fell mjög auðveldlega í þá gryfju að gera lítið úr sjálfum mér og jafnvel tala niðrandi um sjálfan mig í annara manna viðurvist. Því þarf ég að sýna sjálfum mér varfærni og háttprýði sem kemur svo til með að skila sér út á við i samskiptum mínum við aðra.

Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf,

englar né tignir…. hvorki kraftar,

hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað,

muni geta gjört oss viðskila við

kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.

16.)  Hvers eðlis er núverandi samband þitt við Krist? Hvernig má bæta það? Ég er meira og meira að taka Krist inn í hjarta mitt, ég hef eytt fjölda mörgum árum í að berjast á móti tilvist Krists og kenningum hans. Í dag er ég að taka hann meria og meira í sátt og mér er alveg að takast að viðurkenna tilvist hans.

17.)  Nefndu atriði í fyrsta eða öðru sporinu þar sem þú átt enn í baráttu í prógramminu.  Enn og aftur verð ég að taka það fram að til að mynda vegna þess að ég er vísindalega hyggjaður og vil fá sannanir fyrir hinu ýmsu í lífinu og tilverunni þá á ég enn erfitt með að taka trú á þá feðga trúanlega. Enda er ég ég!

18.)  Hvers heldur þú að þú þarfnist til að ráða bót á þessu vandamáli? E.t.v. þarft þú t.d. að deila erfiðleikum þínum með vini og biðja um bæn, stuðning eða ráðgjöf. Ég þarf á einhvern hátt að ná að opna fyrir eða brjóta niður þann múr er ég hef byggt upp í kringum sál mína svo mér auðnist að takast á við vanlíðanina og óttann sem býr i brjósti mér.

Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn,

til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.

Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur

að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann.

19.)  Hvaða hjálp vilt þú fá frá Drottni þegar þú leitar til hans um styrk? Leiðsögn til að takast á við vandamál mín og finna köllun mína í þessu lífi svo mér megi auðnast að lifa inihaldsríku lífi í friði og kærleik.

Óttast  þú, eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast,

því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig

með hægri hendi réttlætis míns.

20.)  Ert þú fær um að taka á móti kærleika Guðs til þín? Hvers vegna?/Hvers vegna ekki? Ég veit ekki! Kannski vegna þess að ég á mjög erfitt með að SLEPPA !!!

Annað Spor, fyrri vika.

Við fórum að trúa, að máttur okkur æðri,

gæti gert okkur heil að nýju.

 

1.)  Teldu upp einhver atvik úr reynslu þinni sem fengu þig til að missa trúna á Guð. Það er ekki bara vegna þess að ég hef upplifað andleg veikindi, vanlíðan og sársauka þeirra vegna. Heldur líka vegna minna andlegu og sársaukafullu veikinda hef ég tekið inn á mig allann þann viðbjóð og hörmungar sem ég hef horft upp á og eiga sér stað um allann heim. Vegna alls þess hef ég átt mjög erfitt með að trúa því að það geti verið til einhver vera eins og Guð.

2.)  Trú er vitnisburður og kjarni þess sem menn vona en sjá samt ekki. Hver er þín von? Það er mín von að það sé tilgangur með þessu lífi og að allt sem við upplifum í því sé einskonar skóli fyrir framhaldslíf.

Tafarlaust knúði hann lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan

sér yfir um, ….. En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir

áföllum ….. En er langt var liðið nætur kom hann til þeirra,

gangandi á vatniniu. Þegar lærisveinarnir sáu hann gagna á vatninu,

….. Pétur svaraði honum: “Ef það ert þú, herra, þá bjóð mér

að koma til þin á vatninu.” Jesús svaraði: “Kom þú!”

Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til ahns.

En sem hann sá rokið, varð hann hræddur

og tík að sökkva. Þá kallaði hann: “Herra, bjarga þú mér!”

Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði:

“Þú trúlitli, hví efaðist þú?” Þeir stigu í bátinn og þá lægði vindinn.

En þeir sem í bátnum voru, tilbáðu hann og sögðu:

“Sannarlega ert þú sonur Guðs.”

3.)  Hvernig getur þú tengt reynslu Péturs þinni eigin? Hvernig er hægt að fylgja einhverri manneskju eða stofnun sem boðar einhvern “einn” sannleika. Hvernig á að vera hægt að finna sannleikann mitt í ringulreið blekkinga og svika.

Hann svaraði þeim: “Vegna þess að yður skortir trú.”

Sannlega segi ég yður: Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn,

getið þér sagt við fjall þetta: “Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig.

Ekkert verður yður um megn.

4.)  Mustarðskornstrú er eins og vonarleiftur blandað sannfæringu um að Guð muni annast erfiðleikana í lífi okkar. Hvar í lífi þínu er Guð að gefa þér mustarðskornstrú?  Hugsanlega í vangaveltum mínum um trúarbrögð og trú (sem er ekki það sama). Hvar er sannleikann að finna?

Jesús sagði við hann: “Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir.”

Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: “Ég trúi,

hjálpa þú vantrú minni!”

5.)  Hvað hindrar þig í að trúa því virkilega að máttur þér æðri geti gefið þér heilbrigði á ný? Óttinn við að uppgötva að allt saman, lífið og líf eftir dauðann sé ein blekking og/eða geðveiki

Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurkramið hjarta

þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.

Margar eru raunir réttláts manns,

en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.

Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.

Ógæfa drepur óguðlegan mann.

Þeir er hata hinn réttláta skulu sekir dæmdir.

Drottinn frelsar líf þjóna sinna,

enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.

 

6.)  Jesús Kristur hefur máttinn til þess að lækna beygðan og brotnn anda þinn. Hvað getur þú gert til þess að opna sjálfan þig fyrir krafti Krists? Nú veit ég ekki. Hvað get ég gert? Get ég treyst innsæi mínu og hjarta mínu?

 

7.)  Á hvern hátt finnst þér hegðun þín vera ens og þú værir ekki með réttu ráði? Ég á það til að vera upptendraður yfir einhverju ægilega spennandi og veð í það af fullum krafti, svo hrynur spilaborgin og ég kremst undir brostnum vonum. Uppgjöf!

 

Já, oss sýndist sjálfum,

að vér hefðum þegar fengið vorn dauðadóm.

Því að oss átti að lærast það að treysta ekki sjálfum oss.

heldur Guði, sem uppvekur hina dauðu.

 

8.)  Á hvern hátt hefur þér fundist þú fá dauðadóm í lífi þínu? Þegar ég kemst í gott jafnvægi. líður vel og er þokkalega öruggur og mér tekst vel að ráða við líf mitt svo fer andlegu heilsu minni að hraka og ég upplifi mig sem vesaling sem getur ekkert, hef enga hæfileika, er gersamlega snauður af persónuleika og ég bregst sjálfum mér algerleg enn og aftur, enn og aftur og langar bara að þessu líf ljúki hér og nú.

Því það er Guð sem verkar í yður bæði að vilja

og framkvæma sér til velþóknunar.

9.)  Á hvern hátt sérð þú Guð að verki við það að gera þig heilann að nýju? Með því að byrja á því að trúa, treysta og uppgötva Guð í hjarta mínu, Ef/þegar það gerist þá mun hann leiða mig og styrkja í vinnu minni til að finna frið í hjarta mér.

10.)  Hvað getur þú gert til þess að viðhalda tilfinningalegu jafnvægi? Með því að sýna æðruleysi og trúa og treysta á sjálfan mig og göngu mina í gegnum lífið í leit mnni að mér sjálfum og mínum æðri mætti sem er sannur í hjarta mínu.

Fyrsta Spor, seinni vika.

Við viðurkenndum vanmátt okkar vegna aðskilnaðar frá Guði

og að okkur var orðið um megn að stjórna eigin lífi.

 

11.)   Hvaða gagnslausu hegðun þarft þú að leggja niður?  Að vera vofa, brjóta mig niður, gera lítið úr sjálfum mér.

 

12.)   Hvaða sérstaka hegðun er vandamál sem þú hefur forðast? Eða hvaða hegðun ert þú að verja eða afsaka? Hvernig gerir þú þetta?  Ég fer að leika hirðfífl og kjána í samskiptum til að fela ótta og óöryggi. Þykist vera kátari og hressari en ég raunverulega er og auðvitað öruggari.

 

13.)   Sú ákvörðun glataða sonarins að lifa lífi sínu í sjálfselsku gerði hann vanmáttugan og varð til þess að hann lifði í stjórnleysi. Á hvern hátt líkist þú honum?  Að láta öfundsýki gagnvart betri lífskjörum og aðstæðum annara valda mér vanlíðan.

 

14.)   Hvernig reyndir þú að breyta ástandinu í lífi þínu áður fyrr með því að ráðskast með umhverfi þitt?  Með þögninni, hindra þannig óþægileg og sársaukafull samskipti.

 

Ég veit að ekki býr neitt gott í mér, það er holdi mínu.

Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma hið góða.

Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki,

en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég.

En ef ég gjöri það, sem ég vil ekki, þá er það ekki

lengur ég sjálfur, sem framkvæmi það,

heldur syndin sem býr í mér.

15.)   Getur þú fundið samsvörun í ofangreindu versi? Hvar í lífi þínu finnur þú mest fyrir þessari baráttu?  Nei ekki að öllu leiti, þetta vers er of öfgafullt að sumu leyti (þó sérstaklega fyrsta línan, og síðasta líka) hljómar eins og stjórntæki stofnunarinnar. En að gera ekki hið góða get ég vel tekið undir, að ég standi mig ekki alltaf þar.

16.)   Hefur þú fundið fyrir einhverri Huggun eða hjálp frá Guði við það að viðurkenna vanmátt þinn og að það er þér um megn að stjórna eigin lífi? Segðu hvernig.  Já að einhverju leyti við skoðun mína á þrem trúarbrögðum (Yoga heimspeki, Búddisma og Kristni). Ég er vanmáttugur og mér er um megn að ná tökum á lífi mínu og líðan. Ég þarf hjálp?

17.)   Hvaða skilning leggur þú í orðin: “þegar ég er veikur, þá er ég máttugur”?  Öfugmæli, til að fá fólk til að hugsa. Þegar ég er veikur er ég vanmáttugur.

18.)   Hvers vegna heldur þú að það sé ekki viturlegt að treysta eigin hyggjuviti?  Því það á það til að koma mér í ógöngur, það er stundum eins og það sé að leggja fyrir mig gildrur.

Fyrsta Spor, fyrri vika.

Við viðurkenndum vanmátt okkar vegna aðskilnaðar frá Guði

og að okkur var orðið um megn að stjórna eigin lífi.

 

1.)  Hvað er það sem hindrar þig í að viðurkenna vanmátt þinn og stjórnleysið í lífi þínu? Að gera mig að fífli, fólk sjái hversu mikill aumingi ég er. Að sannleikurinn um hversu lítilsgild ég er sem manneskja. Ég má ekki fyrir mitt litla líf láta aðra sjá hinn raunverulega mig.

 

2.)  Hvað er það í lífi þínu sem veldur þér mestri hryggð?  Það er sú mynd sem ég ber í huga mér af lífsferli mínu. Líf mitt er uppfullt af mistökum og glötuðum tækifærum. Ég hryggi sjálfan mig óendanlega.

 

3.)  Hvaða atburðir í lífi þínu urðu til þess að þú gerðir þér grein fyrir að sársaukinn væri svona mikill?  Þegar ég fór fyrst til sálfræðings og fékk loks að vita að það sem ég hafði talið vera aumingjaskap og að ég væri eina manneskjan í heiminum sem liði svona væri ekki rétt heldur væri ég andlega veikur. Svo eftir stutt og misheppnað ástarsamband sem varð dropinn sem fyllti mælinn, reyndi ég að fyrirfara mér.

 

4.)  Sársauki er þér merki um að bregðast við með þinni ávanabundnu hegðun eða áráttu. Nú gæti sársauki hins vegar verið merki um að viðurkenna vanmátt þinn og til að velja lífið. Hvers konar sársauki veldur hörðustu viðbröðunum hjá þér?  Algert vonleysi og andlegur sársauki þar sem mér finnst ég vera að gefast upp á lífinu og tilverunni.

 

5.)  Okkur finnst lífið í góðu lagi þegar við getum treyst á gömlu aðferðirnar til þess að komast af. Hvernig hefur þetta hindrað þig í að sjá raunveruleg vandamál þín?    Með því að láta undan óttanum/kvíðanum og horfast ekki í augu við það sem er að valda mér hugarangri og takast á við það.

 

6.)  Á hvaða sviði lífs þíns reynist þú hafa mesta þörf fyrir að vera við stjórn?  Á tilfinninga sviðinu. Ég hef alla tíð skammast mín fyrir að sýna/hafa tilfinningar, haldið aftur af þeim, haldið þeim niðri. Brotin sjálfsmynd.

 

7.)   Hverjar eru afleiðingar sjálfseyðandi hegðunar þinnar?   Ég vil leggjast í kör og deyja.

 

8.)   Postularnir fundu fyrir ótta og vafa vegna vanmáttar síns. Hvað óttast þú mest? Hvað veldur því að þú efast?  Lífið og dauðann. Að vera ekki ég sjálfur, ná ekki að byggja upp sjálfsmyndina og trúa á mig sjálfann. Hvað er handan lífsins, hvað gerist eftir dauðann?

 

9.)   Hvar í lífi þínu finnur þú mest fyrir stjórnleysi?   Í samskiptum við fólk, ég stend ekki fyrir mínu. Ég þarf að þora t.d. að hafa sjálfstæðar skoðanir. Láta ekki vaða yfir mig á skítugum skónum. Elska mig!

 

10.)   Tilgreindu sérstakar aðstæður þar sem þú finnur upp afsakanir fyrir hegðun þinni.  Sérstakar? Þegar ég segi mína skoðun á málefnum, fer ég “alltaf” að afsaka þær. Ömurlegt!

Íhugun um mína trú

Ég taldi mig lengi vel vera trúlausan en svo er nú ekki, ég hef mína trú en það er ekki nokkur leið fyrir mig að gleypa hrátt það sem kirkjan sem stofnun er að boða enda get ég ekki skilið hvernig sé hægt að boða að hvert orð úr biblíunni sé heilagur sannleikur, er kirkjan ekki annars að gera það, ég verða að viðurkenna að ég er ekki alveg viss hvort svo sé? Mig rámar reyndar í að svo sé.

Það var að trufla mig svolítið í byrjun öll þessi skrif í vinnubókinni Tólf Sporin Andlegt Ferðalag um Guð, allt snéristu um að tjatta við þá feðga, hleypa þeim inn og gefa mig allann á þeirra vald. Ég var ekki alveg að kaupa þetta en ákvað að sýna af mér risastórt þroskamerki og vera algerlega æðrulaus gagnvart þessu og það er vel þvi þetta kerfi er að svínvirka fyrir mig.

Ég rakst á bókaflokk fyrir um tveim árum síðan um yoga heimspeki og við lestur þessara bóka var sem kveikt hefði verið á ljósi í brjósti mér. Það var eins og sannleikurinn hefði tekið sér bólfestu í hjarta mínu. Mín trú er þvert á allar trúarstefnur.

Ég er sannfærður um að finna megi sannleikskorn í allri trú.

Fjórða vika (síðasti opni fundurinn)

1.)    Ég bæti mér upp tilfinningar um lágt sjálfsmat með því að: Taka þátt í slúðri um aðra, gera lítið úr/hæðast/grínast að þeim er minna meiga sín. Upphefja sálfan mig í huganum gagnvart veiklyndu fólki. Fólk sem ég skynja að er veiklundaðra en ég. (ljótt, ljótt)

 

2.)    Ég einangra mig frá öðru fólki með því að : Loka mig af eftir t.d. vinnu, svara hvorki símtölum né sms‘um. Finn afsakanir til að umgangast eða hitta ekki fólk.

 

b) Þegar ég umgengst fólk í valdastöðu, á ég vanda til að: Láta sem ég sjái það ekki, tipla á tánum í kringum það eða jafnvel fíflast allhressilega í kringum það.

 

3.)    Aðferðirnar sem ég nota til þess  að leita eftir viðurkenningu frá fjölskyldu minni eða vinum eru m.a. þær að: Humm erfitt að segja, ég reyni helst af öllu að læðast meðfram veggjum og láta taka sem minnst eftir mér. Ég passa mig á að bjóðast aldrei að fyrra bragði að gera greiða (Helst).      

        b) Mig grunar að tryggð mín við                 sé óviðeigandi vegna þess að: Vegna þess að ég er brjálæðislega meðvirkur og þori ekki að standa með mér og mínum skoðunum. Svona almennt í lífi mínu.

4.)    Fyrsta minning mín um það að reið manneskja hafi hrætt úr mér kjarkinn, var þegar: Man ekki ! En ég fer alveg í rusl og get ekki tjáð mig og mínar skoðanir við ákveðið og reitt fólk. Á þó til að „bilast“ við mjög reitt fólk á móti og fa svo heiftarlegt samviskubit og skammast mín.

         b) Ég bregst við persónulegri gagnrýni með því að: Fá mikinn kvíða, hætti að geta hugsað rökrétt og verð „heimskur“. Finnst ógeðslega erfitt að svara til baka. Langar að stinga viðkomandi í hakkavél.

5.)    Einstaklingar í lífi mínu sem hafa ávanamyndandi eða truflaðan persónuleika, t.d. alkóhólistar, vinnufíklar, spilafíklar, ofætur, trúaroftækisfólk eða fólk með fullkomnunaráttu, eru: Eru helvítis fávitar! Mjög pirrandi fólk, vil helst af öllu ekkert hafa saman við það að sælda, En mikið getur verið gott að detta í óreglu og smá neyslu svona upp á funnið að gera. Faðir minn er reyndar vinnualki, ég er það ekki og finnst ég því oft vera latur og lélegur pappír er ég ber mig saman við hann.

         b)Þau sambönd sem veita mér mesta endurnæringu og stuðning eru: Heilbrigð, nærandi, kærleiksrík og þar sem ríkir gagnkvæmt traust, virðing, samkennd og kærleikur (Ást).

6.)    Síðast þegar ég tók eftir að einhver notaði mig, var þegar:  Það var ákveðið fyrir mig að ég átti að hjálpa konu sem sækir vinustað minn að flytja að mér forspurðum. Ég varð pirraður og reiður. Ég þekki vel þá tilfinningu að vera hafnað er ég ætla að tala um mína (van)líðan, hún og fleirri ætluðust til þess og tóku ákvörðun algerlega fyrir mig.

 

b) Ég reyni að bjarga öðrum, til dæmis með því að: Gera hluti og hlusta á vandamál (væl) annara án þess að vilja það þá stundina. Vera já maður og geta ekki staðið með sjálfum mér.

 

7.)    Ég er yfirmáta ábyrgðarfullur þegar: Ég tók að mér að leiða hóp sem sjálfboðaliði og nú finnst mér ég bera fulla ábyrgð á að hann sé starfandi, ég ber í raun enga ábyrgð á því hvort hópurinn gengur eður ei,  og þetta er farið að verða mér baggi og hvöð.

 

          b) Ég reyni að bjarga öðrum, til dæmis með því að: Hérna veit ég í raun ekki hvað ég ætti að segja, mér finnst eitthvað vera hérna en næ því ei. Ég fell stundum í þessa gildru og ætla að fara á fullt í að finna lausnir fyrir aðra en það endist stutt og ég er alveg að losna við þessa áráttu.

 

8.)    Nýlega var ég hræddur við að tjá sannar tilfinningar mína og gafst upp fyrir           þegar: Man ekki dæmi í augnablikinu en þetta er nokkuð sem hefur skelft mig frá ómunatíð, ég finn fyrir kvíða og angist þegar tilfinningar eru annarsvegar. Að standa með sjálfum mér er mér nánast um megn ég fæ svo mikinn kvíða, en ef ég tek upp á því að standa með sjálfum mér fæ ég brjálað samviskubit á eftir. Ég finn spennu þegar mér er sagt að visst fólk sé að bíða eftir mér.

 

9.)    Ég afneita, gerið lítið úr, eða bæli tilfinningar mínar þegar: Nánast öllum stundum, ég hef lifað við lamandi kvíða svo lengi sem ég get munað, ég hef að jafnaði passað mig á að sýna helst engar tilfinningar, ég skammast mín fyrir að hafa tilfinningar. Mín tilfinning er sú að það sé aumingjaskapur að sýna tilfinningar (ótti) og að ég sé að gefa skotleyfi á mig.

 

10.)  Ég óttast höfnun eða það að verða yfirgefin, helst í sambandi mínu við: Ég hef frekar velt þessu fyrir mér á þann hátt að ég væri bara best kominn einn í mínu lífi, stundum spáð í það hvernig væri bara að yfirgefa hið daglega amstur með því að ganga í munkaklaustur eða eitthvað í þá veruna. Þögnin getur verið alveg skelfilega þrúgandi þegar ég er í kringum fólk, finnst oft eins og ég megi búast við holskeflu af ég veit ekki hvað…

         

          b) Núna bregst ég við þessum ótta með því að: Velta því fyrir mér hvað ég sé að hugsa og hvaða geri það að verkum að ég skuli gera svo lítið úr mér að mér auðnist ekki að standa með sjálfum mér og minni sannfæringu. Það er klárt að óttinn er enn við völd.

 

11.)  Afleiðingar af truflun í fjölskyldu minn má sjá í lífi mínu þegar ég: Ég lifi með stöðugt samviskubit um að ég hafi brugðist og það hefur fylgt mér allt mitt líf, ég hef í áratugi flúið raunveruleikann í dagdrauma og bókalestur.

 

12.)  Núverandi erfiðleikar mínir við náin samskipti eru: Meðvirkni, þóknast öðrum, ótti og brotin sjálfsmynd. Ég á erfitt með snertingar og nánd, finn strax fyrir vanlíðan ef einhver er reiður í kringum mig þó svo reiðinni sé ekki beint að mér. Ég t.d. sting ekki upp á einhverju að gera heldur bíð eftir að einhver annar geri það og get svo ekki tekið afstöðu með eða á móti ef það eru fleiri en einn möguleiki.

         

          b.) Ég á erfitt með að treysta                vegna þess að: Ég óttast að vera hafður að fífli, féþúfu, svikinn. Ég skelfist að vera misnotaður á einn eða annan hátt, einnig vegna þess að ef ég hleypi fólki nærri mér, gæti það séð hversu lítils virði og mikill aumingi ég er.

 

13.)  Þegar mig skortir áhuga og innri hvöt og ég slæ hlutunum á frest, líður mér: Eins og ég sé einskis virði og fæ mikinn kvíða og byrja að brjóta mig niður.

 

          b.) Núverandi verkefni sem mér gengur ekkert með, eru:  Er að taka af skarið og fara að taka að mér ákveðið verkefni sem ég hef fyrir höndum í vinnunni, ég er stöðugt að fresta því.

 

14.)  Þegar ég hef ekki stjórn á hlutunum, óttast ég: Að allt fari í hund og kött hjá mér.

 

          b.) Þegar ég hef ekki stjórn á hlutunum, líður mér: Eins og ég sé að fara yfir um af kvíða, ótta og sjálfshatri.

 

15.)  Hvatvísi mín varð til þess að ég tók slæma ákvörðun þegar ég:

Týnt efni

Ég þarf að byrja á að leiðrétta smáveigis mistök, opnu fundirnir eru víst fjórar vikur ekki þrjá eins og ég skrifaði í fyrsta blogginu, þá er það hér með leiðrétt.

Ég fór að fara yfir svörin mín fyrstu vikurnar og uppgötvað þá að ég hafði ekki svarað neinum spurningum skriflega fyrr en í fjórða vika var hálfnuð, svo það er greinilegt að það tók mig tíma að taka ákvörðun um hvort ég ætti að vera eða fara. Eitt af því sem sat í mér i upphafi var að binda mig alltaf einu sinni í viku í um tvo tíma allann veturinn, ég var virkilega að láta svoleiðis smáatriði trufla mig sem sýnir svo ekki verður um villst að ég þarf heldur betur á þessari sjálfsskoðun að halda.

Hef ég virkilega ekki tvo tíma í viku til að bæta lífsgæði mín og lifa innihaldsríkara lífi, jú heldur betur og þetta eru einhverjir bestu og mest gefandi stundir í hverri viku. Hópurinn (trúnaðar fjölskyldan mín) minn hittist reyndar einu sinni aukalega í viku og förum við saman yfir spurningarnar sem er vel og eykur og dýpkar skilninginn á þeim.

Ég var svolítið svekktur út i sjálfan mig fyrst til að byrja með í gærkveldi fyrir að hafa ekki svarað öllum spurningum frá upphafi, ég var alvarlega að velta því fyrir mér að taka þær fyrir og svara þeim öllum svo engin spurning væri ósvöruð, ég verð að gera þetta “fullkomið”. En nei það ætla ég ekki að gera, ég vil heldur vera sjálfum mér trúr og standa með því sem ég hef svarað og því sem ég hef trassað, það er jú hluti af þessari vinnu að átta mig á því að ég er ekki fullkominn og ég má alveg klikka, það er lærdómur útaf fyrir sig. Ég get jú farið í þessa vinnu aftur næsta vetur og þá verður nú gaman að sjá hvernig svörin hafa breyst með betri sjálfsvitund og andlegri líðan.

Tólf spora vinna mín hjá Vinum í bata.

Ég var dreginn inn á kynningarfund hjá Vinum i bata nú í haust, við fyrstu kynni leist mér svona rétt sæmilega á þetta, fyrstu þrír fundirnir eru opnir til þess að gefa fólki tækifæri til að velta fyrir sér og finna inn í sér hvort sjálfskoðun sem þessi sé nokkuð sem þú ert tilbúinn í, þar sem þér gefst tækifæri til að bæta lífsgæði þín með góðu fólki. Nú ég verð að segja að á þriðja kynningarfundi var búið að krækja í mig og ég tók þá ákvörðun að hella mér út í þessa vinnu til að bæta lífsgæði mín. Ég kem til með að blogga hér á þann hátt, að ég mun skrifa spurningarnar úr sporavinnunni og mín svör.

Strax á kynningarfundunum byrjum við að svara spurningum svo tekur sporavinnan við og þá er hópunum lokað og þú kemur til með að vinna með sama fólki allann veturinn við að kafa ofaní sálarlíf þitt. Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér þetta úrræði vil ég benda síðu vina í bata sem er viniribata.is

Þar sem þetta eru mjög persónuleg skrif hef ég ákveðið að koma ekki fram undir eigin nafni. Það getur vel verið að ég komi undir nafni einn góðan veðurdag en sá dagur er ekki dagurinn í dag. Eins og er þori ég það ekki.

Hugleiðingar mínar og svör skrifaði ég niður í stílabók, ég mun ekki á nokkurn hátt reyna að ritskoða þau. En á hinn bóginn mun ég laga stafsetningarvillur og málfræði eftir fremsta megni. Öll svör sem koma fram við spurningunum eru mínar hugleiðingar inn á við og mín sjálfsskoðun, rétt eða rangt á ekki við, svörin bara eru. Er það einlæg ósk mín að þau muni koma sem flestum til hjálpar.